135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:34]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi kostnaðarþáttinn þá er það fjármálaráðuneytið sem leggur mat á hann. Við leggjum frumvarpið fyrir fjármálaráðuneytið og það leggur mat á kostnaðarþáttinn og það kemur fram í kostnaðarmatinu að kostnaður eykst ekki. Ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði, það er fjármálaráðuneytið sem leggur þetta fram. Ég tel að breytingin frá 2003 hafi skilað sér. Hvort hún hafi skilað sér í peningum, 20 milljónum eða hvað hún hefur skilað sér í háum fjárhæðum, hef ég ekki á takteinum. Ég tel að hún hafi skilað sér á þeim tíma með þeim hætti því að þá var hún gerð til að loka ákveðnum ramma í fjárlagagerð dómsmálaráðuneytisins. Ég var ekki ráðherra þá þannig að ég þekki ekki einstök atriði þess máls en ég tel að hún hafi skilað sér mjög vel í allri almannavarnastarfsemi í landinu. Það hafi komið fram hvað eftir annað að þessi breyting auðveldaði okkur mjög að búa til þá öflugu stjórn- og samhæfingarstöð sem við höfum núna í Skógarhlíðinni. Hún hefur auðveldað mjög það mikla samhæfingarstarf sem er bakhjarl þess að við getum náð árangri á hættustundu á grundvelli þessa frumvarps og þess kerfis sem við höfum komið upp.