135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almenn hegningarlög.

184. mál
[15:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Atvikin höguðu því þannig að hv. þm. Atli Gíslason sem ætlaði að fara í þessi mál varð frá að hverfa af óviðráðanlegum orsökum. Ég hef ekki kynnt mér til hlítar ákveðna þætti málsins sem hér er lagt fram en í fljótu bragði sýnist mér að ákvæðin sem varða hryðjuverk og peningaþvætti séu þannig útfærð að við þau megi búa og geri því engar athugasemdir við þau á þessu stigi málsins.

Hins vegar langar mig til að segja nokkur orð um þann þátt málsins sem fjallar um mansal. Ég hef komið að umfjöllun um þau mál úr þessum ræðustól áður fyrir hönd flokks míns í gegnum átta ára þingsetu mína. Þar vil ég gera nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Í fyrsta lagi er leitt til þess að vita að hæstv. ráðherra skuli ekki, með þessu frumvarpi, fullgilda þá tvo samninga sem getið er um í 1. gr. laganna. Mér þykir það líka undarlegt að 1. gr. skuli orðuð með þeim hætti sem raun ber vitni þar sem samningarnir eru tilgreindir í lagagreininni án þess að sett sé í lagagreinina hvað beinlínis er átt við. Þótt samningarnir fjalli um sama málið að mörgu leyti þá er sannleikurinn sá að Evrópuráðssamningurinn gengur mun lengra í skilgreiningum sínum en samningur Sameinuðu þjóðanna. Þótt Evrópuráðssamningurinn byggi á Palermó-samningi Sameinuðu þjóðanna eru miklu útfærðari atriði í honum en Palermó-samningnum. Ég hefði haldið að það væri sterkara lagatæknilega séð að útfæra þá í lagatexta það sem við er átt en ekki að tilgreina samningana aðeins. Ég velti fyrir mér hvort það að tilgreina þá hafi einhverja þýðingu.

Mér þykir alveg ljóst, það sést svo sem af greinargerð með frumvarpinu, að það er ekki verið að fullgilda samningana með þessu lagafrumvarpi heldur er hér einungis yfirlýsing um að þeir verði fullgiltir á endanum en enn hafi ekki farið fram athugun á því hvaða lögum þurfi að breyta til að segja megi að þeir gangi að fullu og öllu í gildi á Íslandi. Það sem mér finnst skipta mestu máli varðandi meðferð mansalsmála er að þau séu ofarlega á forgangslista okkar. Það skiptir verulegu máli að löggjöfin sé með þeim hætti að lögregluyfirvöldum sé skýrt uppálagt hvers konar verkefni þeim eru falin í þessum efnum.

Í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins er fjallað um þá aðstoð sem okkur ber að veita fórnarlömbum mansals, sem er eitt af þýðingarmeiri atriðum í Evrópuráðssamningnum og sömuleiðis eitt af grundvallaratriðum Palermó-samningsins. Í 13. gr. er vikið að þeim fórnarlömbum mansals sem dvelja ólöglega í viðtökuríki eða dvelja þar löglega og hafa skammtímadvalarleyfi. Í ákvæði 14. gr. samningsins, segir í greinargerð, er fjallað um dvalarleyfi og í 15. gr. um bætur og lagalega úrlausn, þar á meðal um rétt til lögfræðiaðstoðar og gjafsóknar.

Það er mjög þýðingarmikið að ákvæði af þessu tagi séu sett í lög á Íslandi. Við getum ekki talist fullgildir aðilar að þessu samstarfi Evrópuþjóða, sem reynt hefur verið að koma á til þess að reyna að stemma stigu við þessum skipulögðu glæpaverkum, nema við innleiðum öll þessi ákvæði og mörkum þeim skýran stað í lögum.

Ég hef í tví- eða þrígang flutt á Alþingi Íslendinga frumvarp sem varðar slíka fórnarlambavernd og mér þykir mikilvægt að það frumvarp verði tekið til sjálfstæðrar skoðunar í allsherjarnefnd þegar þetta mál verður til umfjöllunar þar. Með því frumvarpi legg ég til innleiðingu þeirra þátta sem getið er um í greinargerð þessa frumvarps. Ég tel sannarlega tímabært að setja þau atriði í lög.

Frumvarpi mínu var á endanum vísað til ríkisstjórnar Íslands á 133. löggjafarþingi. Ég hef spurt hæstv. dómsmálaráðherra hvað líði vinnu ríkisstjórnarinnar og starfsmanna ráðuneytisins við að skoða það frumvarp. Hæstv. dómsmálaráðherra tjáði þingheimi þann 10. október, þegar ég spurði sérstaklega út í afdrif frumvarpsins hjá ríkisstjórninni, að það væri til skoðunar hvort fullgilding á Evrópuráðssamningnum og sömuleiðis Palermó-samningnum kölluðu á aðrar lagabreytingar en þær sem hugað væri að vegna refsilöggjafarinnar.

Mér finnst koma skýrt fram í greinargerð þessa frumvarps að það kalli á aðrar lagabreytingar. Ég kalla enn eftir því að þeirri vinnu sem hlýtur að vera í fullum gangi í ráðuneytinu verði hraðað svo sem kostur er til að ekki þurfi að bíða lengur eftir fullgildingu samninganna.

Ég tel að forgangsröðun þessara mála þurfi að vera með þeim hætti að þótt mikilvægt sé að við göngum af alefli fram í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hryðjuverkastarfsemi, peningaþvætti og annarri skipulagðri brotastarfsemi þá þurfum við að setja mansalið ofar í forgangsröðina en við höfum gert hingað til. Ég tel kynbundið ofbeldi hafa verið vanrækt af stjórnvöldum og vil halda því fram að kynbundið ofbeldi og ofbeldi af því tagi sem mansalið er, ofbeldi þar sem konur og börn eru hneppt í þrældóm, kynlífsánauð og þrældóm, séu í sjálfu sér hryðjuverk gagnvart þeim einstaklingum sem verða fyrir slíkum glæpum.

Ég vona að allsherjarnefndin taki til skoðunar alla þætti þessa máls og leggist á eitt með mér og okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með að flýta svo sem kostur er fullgildingu þeirra tveggja samninga sem mér þykja skipta svo miklu máli.