135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[16:04]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég fagna komu frumvarpsins til laga um samræmda neyðarsvörun. Með tilkomu Neyðarlínunnar á sínum tíma var brotið blað í boðun viðbragðsaðila og ég efast um að fátt hafi á skemmri tíma orðið til að bjarga fleiri mannslífum á skemmri tíma sem í nauð eru staddir.

Fyrir daga Neyðarlínunnar hafði hver og ein viðbragðsstöð, t.d. lögregla, slökkvilið, sjúkralið og björgunarsveitir, mismunandi símanúmer og mismunandi útkallsform. Fólk sem var á ferðalagi um landið gat með engu móti áttað sig á hvert það átti að hringja þegar vá bar að höndum.

Í björgunarsveitunum var fyrst hringt í formenn sveita sem síðan urðu að hringja í ákveðna lykilmenn og svo koll af kolli.

Nú eru neyðarboðin greind á nokkrum sekúndum. Þjálfað fólk með fullkominn búnað, fullkomna fjarskiptatækni, tekur á móti neyðarboðum, greinir þau og gerir réttum viðbragðsaðilum viðvart. Það er algjör bylting frá því sem var.

Við útfærum það nú í samræmi við þróunina sem orðið hefur í fjarskiptakerfum. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði eru margar aðrar leiðir komnar til að senda boð, sms-skilaboð, TETRA-kerfi og í tengslum við þá stöð er rekin Vaktstöð siglinga og fjarskiptamiðstöð lögreglu. Boð koma inn í fjarskiptamiðstöðina og á sömu mínútunni er boðunarkerfi Neyðarlínunnar notað til að kalla í réttan viðbragðsaðila.

Engum blöðum er um það að fletta að þetta er eitt stærsta skrefið sem stigið hefur verið í þessum þætti öryggismála. Fyrirtækið gegnir gríðarlega miklu hlutverki og er fyrsti viðbragðsaðili í allri vá. Það er því ánægjulegt að verið er að ramma inn starfsemina til framtíðar.