135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:11]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um leiðir til að auka fullvinnslu á fiski hérlendis. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að kanna orsakir mikils útflutnings á óunnum fiski á fiskmarkaði erlendis og mögulegar leiðir til að auka í staðinn fullvinnslu innan lands. Ráðherra birti Alþingi niðurstöður sínar og tillögur eins fljótt og unnt er.“

Frú forseti. Þessi tillaga var flutt á 132. löggjafarþingi, fyrir ári, náði þá ekki fullnaðarframgangi og er því endurflutt. En ég vildi spyrja, frú forseti: Er sjávarútvegsráðherra nokkuð í þinghúsinu?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa að samkvæmt upplýsingum á skjá hjá forseta er hæstv. sjávarútvegsráðherra í húsinu.)

Ég hefði þá gjarnan viljað, ef tök eru á, að hann kæmi, ég þarf að bera fram við hann spurningar.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðherra í salinn.)

Takk fyrir það, frú forseti.

Í greinargerð með tillögunni segir:

„Útflutningur á óunnum fiski í gámum á fiskmarkaði erlendis hefur aukist gríðarlega. Útflutningur þessi hefur verulega neikvæð áhrif á þjóðarbúið enda ljóst að unnt væri að auka útflutningsverðmæti þessa afla umtalsvert ef hann væri unninn hér á landi. Hráefnisskortur er viðvarandi vandamál í íslenskri fiskvinnslu, ekki síst hjá þeim fyrirtækjum sem reka fiskvinnslu án útgerðar og treysta því algjörlega á nægt framboð af fiski á íslenskum fiskmörkuðum. Þegar fiskur er fluttur óunninn á fiskmarkaði erlendis hafa íslenskir fiskverkendur enga möguleika til að bjóða í hann. Segja má að jafnræði íslenskra fiskkaupenda gagnvart erlendum fiskkaupendum, sem og samkeppnisstaða þeirra, sé skert að þessu leyti. Þegar útflutningur á óunnum fiski er orðinn eins mikill og raun ber vitni hefur hann mjög neikvæð áhrif á möguleika fiskvinnslufyrirtækja til viðgangs og vaxtar. Þetta er sérstaklega bagalegt í því ljósi að virðisauki í vinnslu sjávarafurða hefur verið með mesta móti hjá þeim fyrirtækjum sem stunda fiskvinnslu án útgerðar.“

Þar hefur nýsköpunin orðið til. Þar hefur markaðsþróunin ekki síst orðið til, einmitt í þessum minni fiskvinnslufyrirtækjum sem hafa þó ekki verið með útgerð en hafa þurft að reiða sig á fisk á mörkuðum.

Spyrja má hvað valdi því að óunninn fiskur sé fluttur úr landi í þessum mæli. Margir hafa haldið því fram að orsakanna megi leita í ólíkum vigtunarreglum og svokallaðri yfirvigt sem tíðkast á erlendum fiskmörkuðum. Að minnsta kosti virðist ekki eingöngu unnt að skýra hinn mikla útflutning með vísan til þess að hærra verð fáist fyrir fiskinn á erlendum mörkuðum enda hefur fiskverð verið mjög hátt á fiskmörkuðum hérlendis undanfarin ár og ég tala nú ekki um á þessu ári.

Í þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ráðherra kanni hvaða undirliggjandi ástæður og orsakir séu fyrir þessum mikla útflutningi og komi með tillögur til úrbóta.

Í sjávarútvegsstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er komið inn á þetta, m.a. með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Auk þess sem hér er talið upp má nefna að skoða þarf sérstaklega aðstöðumun landvinnslu og sjóvinnslu með það fyrir augum að finna leiðir til að jafna þann mun, auka alhliða menntun á sviði sjósóknar og fiskvinnslu og stuðla að fullvinnslu alls sjávarfangs. Þá þarf að tryggja nýliðun í greininni og huga sérstaklega að þjálfun verðandi sjómanna. Einnig ber að setja reglur um að allur afli, sem ekki fer beint til vinnslu hjá sama aðila og veiðarnar stundar, skuli fara á markað til að auðvelda aðgang innlendrar fiskvinnslu að öllu því hráefni.“

Það er nauðsynlegt að huga sérstaklega að því hvernig styrkja megi íslenska fiskmarkaði í samkeppni þeirra um fisk við erlenda fiskmarkaði þannig að þeir fái að fullu notið þess forskots sem fylgir nálægð við fiskimiðin og útgerðarfyrirtækin. Þáttur í þessari þingsályktunartillögu er að beina því til sjávarútvegsráðherra að hugað verði að þessum atriðum sérstaklega.

Íslenskur fiskmarkaður hefur verið í mikilli framþróun á síðustu árum. Með upptöku fullkomins uppboðskerfis er nú unnt að stunda viðskipti á honum með hjálp netsins, hvar sem er í heiminum. Þannig standa kaupendur erlendis jafnfætis öðrum þegar uppboð fara fram. Er það álit flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu að eðlilegast væri að allur sá fiskur sem nú er fluttur á erlenda fiskmarkaði færi þess í stað á íslenskan fiskmarkað enda væru möguleikar erlendra fiskkaupenda til að bjóða í og kaupa íslenskan fisk og flytja hann út óunninn til vinnslu eða sölu ekki skertir. Hins vegar hefðu íslenskir fiskkaupendur þá alltaf möguleika á að bjóða í fiskinn í samkeppni við aðra.

Ótvírætt er að það þjónar hagsmunum Íslendinga að sem mest af þeim fiski sem veiddur er hér við land sé jafnframt unninn hér á landi. Alþingi og stjórnvöldum ber að haga lögum og reglum þannig að jafnræði og samkeppnisstaða íslenskra fiskverkenda sé trygg til að svo geti orðið.

Frú forseti. Þetta er greinargerðin með tillögunni en einnig fylgja töflur sem sýna hver útflutningur af óunnum fiski í gámum, svokölluðum gámafiski, hefur verið á undanförnum árum. Á síðustu árum hafa í kringum 50–55 þús. tonn af botnfiski verið flutt út í gámum.

Starfsgreinasamband Íslands tók þetta mál fyrir og hefur ályktað um það. Í ágúst síðastliðnum barst sérstök ályktun og var áréttuð í ljósi niðurskurðar á fiskveiðiheimildum. Eins og kunnugt er kom sá niðurskurður mjög hart niður á fiskvinnslu víða um land. Það skyldi enn frekar gefa tilefni til þess að fiskur sem er veiddur við strendur Íslands skuli koma til vinnslu hérlendis eða að minnsta kosti að íslenskir fiskverkendur skuli eiga jafna möguleika á að bjóða í þann fisk á markaði til vinnslu hérlendis. Þetta er áréttað og vitna ég í ályktun Starfsgreinasambands Íslands frá því 22. ágúst sl., með leyfi forseta:

„Starfsgreinasambandið hefur bent á að útflutningur á gámafiski sé verulegur eða um 55 þús. tonn, mest í ýsu en einnig í þorski. Því eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir fiskvinnslufólk að vinna þennan afla hér á landi í stað þess að flytja hann óunninn úr landi. Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kvótaskerðingar ættu þess vegna að beinast að því að gera það fýsilegra ef ekki beinlínis að kvöð að vinna sem mestan eða allan afla innan lands. Heildarmannafli í sjávarútvegi í fiskvinnslu á Íslandi er nú um 9.300 manns og hefur sú tala farið lækkandi. Gera má ráð fyrir að kvótaskerðingin fækki enn í greininni um 1.000 manns, þar af um 400–600 í vinnslunni á næstu tveim árum á sama tíma og verð á sjávarfangi og sjávarafurðum fer hækkandi. Allar forsendur virðast samt leiða til þess að gera sér mat úr stöðunni, skapa verðmeiri vöru, efla vöruþróun, merkja vöru, auka markaðssetningu og fækka milliliðum til þess að greinin geti skapað ný störf, fleiri arðsamari og mun betur launuð störf en nú þekkist.“

Og áfram segir:

„Íslenskur sjávarútvegur er vel fær um að takast á við það verkefni í samvinnu við stjórnvöld og fulltrúa launþega í stað þess að vera stöðugt upptekin af því að kaupa og selja kvóta og leggja niður byggðarlög. Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hljóta að taka mið af þeim sjónarmiðum frekar en að setja fiskverkakonur í vegagerð meðan þorskurinn fær að jafna sig. Eins og kunnugt er fellur útflutningsálag á gámafiski úr gildi 1. september sem gerir það enn fýsilegra fyrir útvegsbændur að flytja fisk til vinnslu erlendis í gámum en verið hefur. Sjávarútvegsráðherra hefur að vísu sett nefnd í málið sem skila átti áliti fyrr í sumar sem ekki varð af vegna fráfalls formanns nefndarinnar, Einars Odds Kristjánssonar. Það verður fróðlegt að fylgjast með niðurstöðu nefndarinnar og ekki síður hinu hvernig mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gætu skilað okkur í samvinnu við greinina betri sjávarútvegs- og vinnslufyrirtækjum en við búum við í dag.“

Frú forseti. Fjölmargir aðrir hafa ályktað um að tryggja þurfi að íslensk fiskvinnsla geti boðið í þann fisk sem veiðist hér við land og hann sé ekki sendur óunninn á fiskmarkaði erlendis. Forsvarsmenn byggðarlaga hafa sagt mér að það sé blóðugt að horfa á útgerðaraðila flytja fisk í stórum stíl í gámabílum og aka jafnvel fram hjá stöðunum þar sem hráefnisskorturinn er og fisk vantar til vinnslu. Þar horfa menn á bílana aka hjá með gámafisk til útflutnings og vinnslu erlendis.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra, ég þakka fyrir að hann er mættur í salinn, hvað líði störfum nefndarinnar sem sett var á laggirnar til að kanna möguleika á því að efla fiskvinnslu hérlendis og kanna hvaða leiðir væru til þess að innlendar fiskvinnslur gætu boðið í þennan fisk til jafns við aðila erlendis? Eins og ég segi eru það á milli 50 og 60 þús. tonn af botnfiski sem flutt hafa verið með þessum hætti á markaði erlendis. Hér er ekki átt við þann fisk sem verið er að flytja beint til neyslu, flugfisk eða annan slíkan fisk, hann er utan við þessar tölur.

Frú forseti. Það má líka velta fyrir sér vinnslu á fiski um borð í skipum úti á sjó, hversu hagkvæm hún sé nú orðin. Þegar við lítum á fiskvinnslu og fiskveiðar í heild sinni getum við velt því fyrir okkur með hvaða hætti við getum staðið vörð um öflugt atvinnulíf eða öfluga fiskvinnslu og hvernig við tryggjum hámarksnýtingu og hámarksverðmætasköpun á fiskaflanum, hvort sem er í ljósi niðurskurðar á þorskveiðiheimildum eða almennt séð samkvæmt markmiðum atvinnugreinarinnar sem hljóta að vera þau að skapa sem mest verðmæti úr afla sem veiddur er og unninn á sem vistvænastan hátt en tryggja atvinnu bæði til sjós og lands.

Ég læt þá máli mínu lokið í bili, frú forseti. Ég mun óska eftir að taka til máls síðar í umræðunni í ljósi þess sem þá verður komið fram. Ég legg áherslu á að um gríðarlega mikið hagsmunamál er að ræða, að íslenskar fiskvinnslur eigi að minnsta kosti jafna möguleika og erlendar fiskvinnslur á að tryggja sér vinnslu á fiski sem veiddur er hér við land. Þessi gámaútflutningur hlýtur að ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar.