135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:30]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sjónarmiði sem kom fram hjá hæstv. ráðherra í lok máls hans að það hljóti að vera eðlilegt að íslenskar fiskvinnslur eigi möguleika til jafns við aðra að bjóða í þann fisk sem fer á markað. Það er í sjálfu sér réttlætismál. Það má vera að fiskframleiðendur eða útgerð velji að selja fiskinn úr landi fái hún hærra verð þar. Við verðum að athuga að verðmyndunin á þessum fiski er ekki aðeins einkamál útgerðarinnar og fiskvinnslunnar heldur ráðast líka kjör sjómanna af þessum verðum. Fyrir utan það er fiskurinn sameiginleg auðlind þjóðarinnar, veiddur við Íslandsstrendur, og þess vegna hlýtur að verða að gera þá eðlilegu kröfu að íslenskar fiskvinnslur eigi jafnan rétt, og ég vildi nú segja bara forgangsrétt til að vinna þann fisk sem hér er veiddur og geta fengið hann á markaði eða eigi a.m.k. jafnan rétt á við erlendar fiskvinnslur til að kaupa fiskinn hér á mörkuðum. Um það snýst kannski málið fyrst og fremst. En það er ekki svo, þeir sem vilja núna flytja fiskinn út í gámum geta gert það án þess að þurfa nokkuð að fara með hann í gegnum fiskmarkaði hér á landi og í því felst mikið óréttlæti.