135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:33]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að að fagna framkomnu frumvarpi. Ég tel að öll umræða um sjávarútvegsmál og verðlagningu og atvinnumöguleika í þeirri grein sé af því góða en fyrst og fremst vil ég benda á að verðlagsmál á fiski eru kjaramál sjómanna. Það eru auðvitað sjómenn sem hafa hag af því að fá sem hæst verð fyrir fiskinn upp úr sjó og það ræður kjörum sjómanna.

Það að setja allan fisk í gáma til útflutnings og selja hann á erlendum mörkuðum gefur oft sjómönnum hæstu launin. En það er líka algengt að bróðurparturinn af öllum veiddum fiski á Íslandi fari í svokallaða beinsölu, þ.e. að útgerðir kaupi fiskinn af sjálfum sér og ákveði verð og verðlagningu á fiskinum sem er auðvitað mjög óeðlilegt. Þess vegna hef ég talað fyrir því að allur fiskur fari á fiskmarkað, að það sé eðlilegasta verðlagningin og aðferðafræðin til að finna rétt og sanngjarnt verð. Ég er nefnilega trúr markaðslögmálunum á þessu sviði og held að markaðurinn eigi að leysa svona mál en ekki einhverjar geðþóttaákvarðanir þeirra sem yfir veiðiheimildunum ráða, svokallaðra sægreifa.

Þetta er í meginatriðum það sem ég tel vera best og það er auðvitað sjálfsagt líka að fiskvinnsla án útgerðar sem ekki á kvóta hafi sömu möguleika á hráefni og þau fyrirtæki sem hafa yfir kvótanum að ráða í dag. Það yrði strax skref í rétta átt og mundi jafna stöðu fyrirtækja ef allur fiskur færi á fiskmarkað.

Hin svokallaða 10% regla var afnumin 1. september og auðvitað má segja að það sé bót í sumum tilfellum fyrir sjómenn. Ég verð líka var við að menn rugla oft saman fullvinnslu á fiski og útflutningi á fiski með flugvélum, misjafnlega mikið unnum fiski. Í sumum tilfellum er verið að flaka fisk og roðrífa hann, stundum er hann fluttur út með roði, stundum heill og hausaður. Það er með ýmsu móti sem fiskur er fluttur út og oft og tíðum er þessu öllu ruglað saman af þeim sem kannski ekki eru fæddir og uppaldir í þessu umhverfi.

Ég vil líka koma inn á þann þátt sem heitir fullvinnsla á fiski úti á sjó. Oft hefur það verið svo að menn koma með lítinn hluta af fiskinum í land og skilja eftir ódýrustu hluta hans eins og beingarð, jafnvel hausa, þeir hirða ekki lifur, þeir hirða jafnvel ekki hrogn, sem er tiltölulega dýr afurð, og þeir hirða náttúrlega aldrei svil, en eru þetta allt afurðir. Þetta er æðioft gert á hefðbundnum vertíðarbátum, þegar fiskur kemur óslægður í land þá er þetta allt hirt og jafnvel þó að þótt fiskur sér slægður úti á sjó eru hrogn, lifur og svil hirt og auðvitað er hryggurinn hirtur þegar fiskur er ekki unninn úti á sjó og hann kemur í land ferskur. Það er ýmislegt sem þarf að ræða þegar þessi mál ber á góma. Til dæmis mismuna Norðmenn í kvótaúthlutun eftir því hvort verið er að landa ferskum fiski eða veiða fiskinn á frystiskipum. Þeir segja einfaldlega að það sé meiri virðisauki fyrir heildina í fiski sem unninn er í landi en fiski sem unnin er um borð í frystiskipum, að ekki sé minnst á hvað frystiskip mengar meira í útblæstri en ísfisktogari eða ferskfisktogari, þannig að það er auðvitað af ýmsu að taka sem þarf að ræða þegar verið er að tala um þessi mál.

Þegar menn tala um hvað gera þurfi til að fá fiskinn á markað eða fá hann í vinnslu hér heima þá þurfa menn líka að líta í eigin barm og spá og spekúlera í því hvers vegna svo erfitt er fyrir íslenska fiskvinnslu að keppa um fiskinn við gámaútflutninginn. Af hverju getur íslensk fiskvinnsla ekki borgað sama verð og menn fá fyrir fiskinn erlendis? Þar kemur náttúrlega inn í þetta ýmis kostnaður hjá fiskvinnslunum hér á landi fyrir utan þessa alhliða umgjörð, eins og vexti og ýmiss konar kostnað innan lands, flutning til og frá, og það þarf ekki að telja það allt upp.

Það er sorglegt að horfa upp á það þegar ríkisstjórn og verkalýðsfélög hafa náð því í gegn að fyrirtæki í sjávarútvegi geta sent starfsfólk sitt heim í 60 daga launalaust og það fer þá á atvinnuleysisbætur á meðan, að ekki skuli vera hægt að ná þessum afla meira í vinnslu á Íslandi en raun ber vitni. Það er auðvitað dálítið skondið þegar verið er að skerða kvótann í þorski um 30% að á sama tíma sé felld niður 10% aflareglan af fiski sem fer í gáma óunninn.

Ég hef reyndar ekki áttað mig á þeirri tillögu vinstri grænna að setja allan fisk á markað sem ekki er í beinni sölu, að hann eigi að fara á markað. Þeir hafa flutt frumvörp þar að lútandi og þetta er náttúrlega hlutur sem að mínu mati gengur engan veginn upp af því að sá fiskur sem ekki fer í beinsölu fer í flestum tilfellum á markað. Ég held að þeir ættu að taka upp þá stefnu okkar í Frjálslynda flokknum að fara fram á að fá allan fisk inn á fiskmarkað.

Eitt finnst mér þurfa að koma fram í viðbót við umræðuna um þessa þingsályktunartillögu, og það má fagna henni enn og aftur — ég sé nú að tími minn er búinn en ég mun kannski leggja aftur orð í belg um þetta mál síðar.