135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:41]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Vegna þeirrar tillögu til þingsályktunar sem hér hefur verið lögð fram vil ég taka eftirfarandi fram. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur þeim sem hér stendur verið falið það verkefni að leiða það starf sem hér er til umræðu a.m.k. að hluta. Það hefur líka komið fram að töf varð á þessu verki vegna fráfalls formanns vinnuhópsins í sumar. Ég get ekki sagt hér og nú nákvæmlega hvenær niðurstöðu er að vænta en vona að það verði sem fyrst.

Verkefnið er nokkuð vandasamt og að ansi mörgu er að hyggja. Þó eru tvö meginsjónarmið sem ég tel að skipti mestu máli í þessu. Í fyrsta lagi að tryggja að þær vigtunarreglur og aðferðir sem notaðar eru við að vigta aflann, hvort heldur það er á Íslandi eða erlendis, séu sambærilegar og að fullt traust ríki innan greinarinnar á því að unnið sé af fullum heilindum, þ.e. að vigtunarreglur endurspegli það að rétt vigt komi upp úr skipunum, að engu sé skotið undan, því að vissulega hefur slíkur orðrómur verið þrálátur. Ég hef ekki nokkrar sannanir í höndum um að hann sé réttur en orðrómurinn er til staðar. Því er nauðsynlegt að reglurnar séu þannig gagnsæjar og öruggar að allir hafi á þeim traust. Það er grundvallaratriði.

Í öðru lagi, sem skiptir miklu máli, er það að ég er sammála því að auðvelda eigi fiskvinnslunni sem mest að hafa möguleika á því að gera tilboð í þann fisk sem er fluttur á erlenda markaði. Ég tel að það sé bæði til hagsbóta fyrir fiskvinnsluna en ekki síður fyrir þá sem flytja fisk á markað vegna þess að að sjálfsögðu hljóta þeir aðilar að leita að sem hæstu verðum. Aftur á móti tel ég að það væri óráð að setja takmarkandi reglur á það að flytja út óunninn afla. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að menn geta deilt lengi um hvað er óunninn afli, hversu mikið þarf að vinna hann til að hann teljist vera unninn. Til dæmis útflutningur á ferskum flökum þar sem lágmarksvinnsla er í gangi, hvar eigum við að flokka hana o.s.frv.? Ég tel að það sé vel hægt að finna leiðir til þess að auka aðgengi landvinnslunnar að þessum afla og það er eitt af þeim verkefnum sem þessi nefnd þarf að vinna að.

Auðvitað eru ýmis atriði sem velta má fyrir sér almennt í þessari umræðu. Það sem mér finnst kannski einna eftirtektarverðast og mest til umhugsunar er sú spurning hvort staða íslenskrar fiskvinnslu, að því gefnu að rétt sé vigtað og menn hafi möguleika til þess að bjóða í hráefnið, sé einfaldlega það veik að hún sé ekki samkeppnishæf. Það væru vissulega alvarleg tíðindi ef það er virkilega svo að verðmæti eyðist við það að vinna vöruna hér heima miðað við að vinna hana erlendis. Það væri mikið áhyggjuefni.

Síðan er líka hitt, sem kom fram hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, að það er heilmikið kjaramál fyrir sjómenn að það sé tryggt að sem hæst verð fáist fyrir aflann og þess vegna er auðvitað ákveðin pressa af þeirra hálfu að ekki sé gripið til neinna aðgerða sem lækka verðið til útgerðarinnar fyrir þann afla sem til sölu er. Ég verð að taka það fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að setja skuli þá reglu að allur fiskur fari á markað. Ég tel að komið gæti upp óheppileg staða, m.a. vegna þess að skipulag veiða og vinnslu er mjög mikilvægt, það reynir alltaf meira og meira á það í nútímasjávarútvegi að þeir sem kaupa vöru frá vinnsluaðilunum, stórmarkaðarnir að lokum erlendis, gera miklar kröfur um afhendingaröryggi og þess vegna er mikið verðmæti fólgið í því að geta skipulagt veiðar og vinnslu saman til að geta þjónað markaðnum með sem bestum og tryggilegustum hætti. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að vinna sig í áttina að sem bestu markaðsskipulagi. Ég held að menn geti verið miklir markaðssinnar án þess að þeir vilji fara þá leið að setja allan fisk á markað vegna þess einfaldlega að stærsti hluti útgerðarinnar er í eigu vinnslunnar, er á sömu hendi, og ég tel að það væri töluvert mikil takmörkun að fara þá leið að skylda allan fisk á markað.

Ég vona að vinna þessarar nefndar gangi sem hraðast fyrir sig. Ég segi það hér að við viljum vanda okkur eins og mögulegt er, afla allra þeirra gagna sem okkur eru tiltæk til þess að leggja mat á þetta. Mestu skiptir að það komi skynsamleg niðurstaða og ég ætla það af viðtölum mínum við marga í greininni á undanförnum vikum og mánuðum að við ættum að geta séð til lands með niðurstöðu á næstu vikum, mánuði eða hálfum eða svo, vona ég.