135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:47]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað skrýtið hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að vilja ekki að allur fiskur fari á fiskmarkað. En ég er alltaf reiðubúinn til þess að reyna að búa til sátt og finna einhverja sameiginlega sátt í þessu máli. Ég gæti t.d. alveg hugsað mér að hlutur sjómanna í afla og aflaverðmæti sem er að öllu jöfnu um 40% á skipum yfir 12 tonn af því aflaverðmæti sem fiskast, færi á fiskmarkað og laun sjómanna yrðu reiknuð út frá því og áhöfnin ætti þann afla og gæti ákveðið hvort hún setti hann á markað eða seldi hann á föstu verði, fyrir hæsta verð, markaðsverð.

Þegar verið er að tala um að fiskvinnsla og útgerð séu svo samtengd að þau verði að vera á sömu hendi eins og hv. þingmaður minntist á, þá hefur það verið þannig gegnum tíðina, bæði í Englandi, Þýskalandi, Danmörku og víða að fiskur fer og hefur að mestu leyti farið í gegnum fiskmarkað.

Meðal annars er gaman að segja sögu af fyrirtæki í Hull sem að mér skilst að sé orðið íslenskt núna og hét J. Marr. Það átti 24 togara og allur afli af þeim fór á fiskmarkað þótt þeir væru með stærstu fiskvinnslu í Hull til margra ára. En vigtun á fiski erlendis er ekkert öðruvísi en vigtun á fiski á Íslandi að því leyti að ísprufur á Íslandi eru æði oft töluvert skrautlegar og menn sem hafa haldið að þeir væru með 320 (Forseti hringir.) kíló af fiski í körum hafa aldrei fengið nema 280 en þegar þeir hafa sett hann á fiskmarkað þá hafa þeir fengið 320 kíló.