135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:51]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar á Íslandi eru sennilega best reknu fyrirtækin í íslenskum sjávarútvegi. Og af hverju held ég þessu fram? Það er vegna þess að þessi fyrirtæki þurfa að kaupa allt sitt hráefni á hæsta verði á fiskmörkuðum. Þetta eru fyrirtækin sem fá hæstu verð fyrir hverja einingu sem flutt er út. Þau fyrirtæki standa sig oft og tíðum miklu betur en fiskvinnslufyrirtæki sem eru í eigu útgerðanna því þar er þetta allt á einni hendi, fiskvinnsla og útgerð.

En þetta er auðvitað stórt kjaramál og ég fagna því að hv. þm. Illugi Gunnarsson skuli ætla að skoða þetta og lítist vel á hugmynd mína um að hlutur sjómanna verði reiknaður með þessum hætti eða gert upp við sjómenn þannig að þeir fái sinn hluta af aflanum og geti selt hann á hæsta verði.

Þingsályktunartillagan sem hér er lögð fram og við erum að ræða núna vekur auðvitað athygli á þessu máli. Vonandi skilar sú vinna sem fer fram í þeirri nefnd sem hv. þm. Illugi Gunnarsson veitir forustu einhverju frá sér á næstu dögum þannig að hægt verði að átta sig á þessu. Hvað varðar vigtunarreglur þá vara ég við því að halda að það sé bara svindlað á vigt erlendis.