135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:58]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili efasemdum með hv. þingmanni um nýtingarstuðla og útreikninga hvað varðar fisk og vinnslu fisks úti á sjó. Ég deili áhyggjum um það með hvaða hætti það er og einnig hvaða áhrif það hefur á jafnræði til fiskvinnslu.

Eitt vil ég draga inn í umræðuna. Það er gríðarlega hröð samþjöppun á veiðiheimildum. Það eru æ færri aðilar sem stunda útgerð, fá yfir að ráða aflaheimildunum. Jafnframt eru sömu aðilar orðnir stærstu aðilarnir í fiskvinnslunni líka hér innan lands, þannig er komið á sömu hendi, örfárra aðila, meginþorra bæði aflaheimilda og vinnslu og þess vegna er kannski verið að útiloka meira eða minna samkeppnisumhverfi fiskvinnslunnar. Þessir aðilar ráða þá orðið hvort þeir flytja fisk út í gámum óunninn á markað erlendis eða hvort þeir fara inn á fiskvinnslumarkað hérlendis. Mér sýnist kerfið vera að þróast í það að verið sé að drepa allar litlar fiskvinnslur og fiskvinnslur sem hafa starfað án útgerðar vegna óöryggis í hráefnisöflun. Hráefnisöflunin og stórvinnslan er komin á hendur örfárra aðila sem hafa þetta allt í hendi sinni. Slíkt getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að mínu mati, það er af og frá.