135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:15]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Já, það er ýmislegt hægt að segja um fiskveiðistjórnarkerfið og þennan niðurskurð. Við erum kannski búin að taka þá umræðu hér áður í haust og ekki er kannski ástæða til þess að gera það enn og aftur eins og við höfum gert. Þó er ekki hægt annað en að koma inn á það að við höfum farið meira eftir tillögum fiskifræðinga varðandi veiðar á þorski en á mörgum öðrum tegundum og til dæmis ýsu. Við höfum farið miklu meira fram úr tillögum varðandi ýsuveiði gegnum tíðina en á þorski. Það eru ýmsir hlutir í gangi núna varðandi veiðistýringu. Það er verið að opna svæði fyrir togurum og það liggur hér frumvarp fyrir þinginu þar sem á að gefa ráðherra heimild til þess að loka og opna svæðum. Hann hefur haft heimild til að loka með reglugerðum svæðum hringinn í kringum Ísland. Sjávarútvegsráðherrar á Íslandi hafa gengið svo langt að þeir hafa sett reglugerðahólf austur í Smugu þannig að það er með ólíkindum hvað menn ætla sér að gera og gera í nafni rangra hluta eða rangra vinnubragða Hafrannsóknastofnunar. Hafrannsóknastofnun hefur ekki staðið sig sem skyldi og það þarf að gjörbreyta vinnubrögðum og hleypa að fleiri aðilum til að rannsaka hluti, bæði svæði og tegundir, og við þurfum að hafa opnara samfélag í rannsóknum og gefa fleiri mönnum tækifæri og möguleika til þess að sinna rannsóknarstörfum.

Við erum að skera niður þorskkvótann að mínu mati á röngum forsendum og flestir ef ekki allir sjómenn sem ég þekki eru á því að forsendurnar fyrir þessum mikla niðurskurði sem var framkvæmdur núna og við erum að vinna eftir á þessu fiskveiðiári eru alls ekki á neinum rökum byggðar, sem betur fer varðandi þorskinn. En það eru kannski aðrar tegundir sem við þurfum að hafa meiri áhyggjur af eins og loðnustofninum og ýsustofninum sem mönnum gengur ekkert allt of vel að veiða. Þetta er hluti af því að við erum að ræða hérna þingsályktunartillögu um hvernig og hvort sé hægt að auka aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að þeim fiski sem við erum að flytja út í gámum. Eins og ég kom inn á áðan þá sagði ég að þetta er að hluta verðlagsmál og það skiptir sjómenn verulegu máli hvort þeir fá að setja fiskinn á fiskmarkað, hvort sem það er á innanlandsmarkað eða erlendis, og þetta skiptir sem sagt afkomu í sjávarútvegi miklu.

Við búum við mjög sérkennilegt og skrýtið verðlagskerfi í íslenskum sjávarútvegi og þar hafa kannski sjómannasamtökin ekki staðið sig sem skyldi með því að í síðustu kjarasamningum var ekkert samið um verð á fiski heldur var áfram unnið eftir þessari svokölluðu Verðlagsstofu og Verðlagsstofa er að gefa út fiskverð í þorski í dag sem er helmingi lægra en innanlandsverð á fiskmörkuðum. Jafnvel er verð á þorski í dag hjá Verðlagsstofu einn þriðji af því sem hægt er að fá fyrir þorskinn erlendis þannig að það hljóta auðvitað að verða töluverð átök um þessi mál á meðan þau eru í því formi sem þau eru. Auðvitað munum við þurfa að endurskoða þetta allt.

Ég fagna því nú að hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur tekið undir hugmyndir mínar og annarra um að hleypa fleirum að hafrannsóknum. Fleiri þingmenn hafa reyndar gert það í stjórnarflokkunum. Það er auðvitað fagnaðarefni og segir það um þessa umræðu og það sannast kannski að dropinn holar steininn og við erum kannski aðeins að opna augu einhverra fyrir því hvernig staðan í þessum málum er.

Eitt vil ég koma inn á sem mér finnst mikilsvert að ræða í þessari umræðu og það eru þeir þættir sem snúa að hafrannsókn og þeim möguleikum sem aðrir aðilar gætu komist að með rannsóknum. Við þurfum að auka mikið peninga í að styrkja rannsóknarefni fyrir aðila sem eru ekki tengdir Hafrannsóknastofnuninni, sérstaka aðila sem geta sinnt rannsóknarverkefnum bæði á svæðum og tegundum og auðvitað megum við ekki gleyma því í þessari umræðu sem er að gjörbreyta öllum forsendum í íslenskum sjávarútvegi og það er sú staðreynd að margir þorskstofnar eru við Ísland. Það eru margir þorskstofnar hringinn í kringum landið. Menn verða að fara að átta sig á því sem styðja þetta fiskveiðistjórnarkerfi að það verður aldrei hægt að færa veiðirétt frá einum landshluta til annars nema það hafi einhverjar afleiðingar. Það er voðalega vont að flytja ónýtt veiðisvæði fyrir utan Stöðvarfjörð nema þá vestur á firði eða öfugt. Fiskveiðistjórnarkerfið gekk upp fyrir 1980 eða 1984 þegar þetta kvótakerfi var sett á af því að þá voru menn að nýta fiskimiðin heima hjá sér. Þá var verið að nýta fiskimiðin í nágrenni við allar þær sjávarbyggðir sem til urðu út af fiski og fiskveiði. Þessir staðir hringinn í kringum landið urðu til út af nálægð fiskimiðanna.

Það er horft fram hjá þessu í dag með þessu fiskveiðistjórnarkerfi og við sitjum uppi með það núna að sjávarútvegur hefur aldrei skuldað jafnmikið og hann gerir nú. Hann skuldar 304 milljarða en hann hefur ekki í mörg ár aflað jafnlítilla tekna inn í þjóðarbúið og hann gerir nú þrátt fyrir að margir ágætir menn, sem hljóta nú að fara að átta sig á því að þeir hafa verið að halda fram bulli, séu að tala um gott fiskveiðistjórnarkerfi og það besta í heimi.

Þegar þetta kerfi var sett á veiddum við 267 þúsund tonn 1984. Við veiðum núna í ár helmingi minna. Það er ekki hægt að segja að við höfum gott fiskveiðistjórnarkerfi.