135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:23]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni sem hér talaði síðast að það hefði gengið vel endilega í sjávarútvegi á þessum árum sem hann nefndi. Tölur um afkomu í greininni benda til annars. Það var viðvarandi halli og tap á greininni og við munum nákvæmlega hvernig skrapdagakerfið virkaði á sínum tíma. Það fækkaði alltaf dögunum sem mátti nýta flotann. Flotinn lá lengur og lengur bundinn við bryggju. Þegar kvótakerfið var sett á að hluta 1984 var það sem neyðarráðstöfun vegna þess í hvaða óefni var komið. Við skulum heldur ekki gleyma til hvaða aðgerða ríkisvaldið þurfti að grípa á árunum rétt fyrir 1990 þar sem voru stofnaðir sérstakir bjargráðasjóðir til þess að bjarga útgerðinni og fiskvinnslunni. Ef við skoðum afkomutölur greinarinnar sýna þær að frá því að kvótakerfið kom á hefur nær undantekningarlaust afkoman í greininni verið réttum megin við núllið.

Vandinn sem mér finnst að við stöndum frammi fyrir er fyrst og fremst samspil hinna hagrænu þátta — þegar ég segi hinna hagrænu þátta á ég við þá tilraun sem kvótakerfi eru til að koma á eignarrétti — og hins vegar fiskveiðiráðgjöfinni, þ.e. líffræðilega þættinum. Ég er einn þeirra sem hafa haft efasemdir uppi um þann þátt málsins, þ.e. líffræðilega þáttinn og hef viljað opna þá umræðu eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á. Ég hef viljað fá fleiri aðila að þeirri umræðu og ég hef sérstaklega horft til Háskóla Íslands. Ég tel þess vegna, þó að mikið sé til í því og mikið umhugsunarefni hvað varðar til dæmis fjölda þorskstofna við landið og hvernig við eigum að bregðast við því, að þá sé ákveðin grundvallarregla í þessu sem skipti miklu, sem er eignarrétturinn, þ.e. að koma á eignarrétti. Það er ekki þar með sagt að við séum endilega búin að koma á bestu tegundinni. Það er mikill ábyrgðarhlutur að fjalla um það hvernig við komum honum á. En ég tel að við eigum í það minnsta að (Forseti hringir.) halda áfram að skoða hvernig við getum bætt hann þannig að það skili sem bestum árangri fyrir íslenska þjóð.