135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lagfæra hér smá söguskýringu hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni því það er alltaf betra að hafa það í söguskýringum sem rétt er. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því, herra forseti, að hv. þingmaður hafi sagt eitthvað á þá leið þegar hann var að bera saman núverandi kvótakerfi og skrapdagakerfið að skipin hefðu legið í landi í skrapdagakerfinu. Ég held að þetta sé rangminni hjá hv. þingmanni.

Vissulega lágu þau stundum í landi en það var þá vegna þess að menn voru að uppfylla þá skyldu að reyna að ná svokallaðri dagatalningu. Reglurnar í skrapdagakerfinu voru þær að dagar sem voru færri en fjórir, að mig minnir, í höfn töldust ekki fylla upp í þá daga sem menn voru að fylla upp í varðandi skrapdagakerfið.

Ef ég skýri þetta aðeins betur út þá var meginreglan sú að í ákveðinn dagafjölda á ári, t.d. 200 daga, áttu menn að stunda aðrar veiðar að meginstofni til en þorskveiðar eða draga úr sókn sinni með því að stöðva skipin í landi. Reglan var sú að menn fengu ekki þá daga fyllta upp í þennan dagakvóta nema þeir stöðvuðu a.m.k. í fjóra daga. Þess vegna kom það auðvitað fyrir að menn stöðvuðu í fjóra daga, lönduðu og lágu svo kannski í landi í tvo daga í viðbót eða sinntu einhverju öðru sem menn þurftu að gera í þágu útgerðarinnar en náðu þá að telja þá fjóra daga frá.

Einnig var það svo, a.m.k. á vestfirska flotanum — sem hafði nú öðruvísi frídagakjarasamning en á öðrum hlutum landsins — að þá reru menn kannski mjög stíft í nokkrar vikur, stoppuðu jafnvel bara sex tíma í landi og lönduðu og beint út aftur og þá taldist í raun og veru veiðistoppinu ekki fullnægt og menn voru þá að taka þann löndunartíma frá þorskveiðum. En þetta gerðu menn nú stundum ef veiði var góð og fyrir vikið kannski komu menn í land og skulduðu frídaga í lok mánaðarins því reglan var sú að menn áttu að skila fjórum dögum og þá stoppuðu menn kannski í þrjá daga í röð eftir að hafa farið í svokallaða veiðiferð á skrap eða þá veiðiferð sem uppfyllti aflasamsetningu sem var minna en 10% af þorski í aflanum eða minna en 15%. Þetta voru nokkrar reglur, þessum 200 dögum var skipt upp í 30 daga með 5% reglu og 50 daga með 10% reglu og svo var 15% regla og síðan voru einhverjir 20, 25 dagar sem menn máttu taka, það taldist skrapveiði þó að menn væru með 25% þorsk. Þetta var gert til þess að reyna að láta veiðarnar ganga upp miðað við mismunandi aðstæður eftir því hvar menn voru.

Ég hygg því að það sé rangminni hjá hv. þingmanni að skipin hafi legið mikið meira í höfn í skrapdagakerfinu en undir kvótakerfinu eða öðrum veiðum. Hins vegar, eins og í öllum fiskveiðikerfum, höguðu menn veiði sinni eftir ýmissi aðlögun og það gera menn líka í kvótakerfinu eins og menn vita og haga veiðunum með ýmsum hætti. Þetta vildi ég bara segja til að leiðrétta söguskýringuna, hæstv. forseti.

Hins vegar er auðvitað rétt að geta þess, af því að við erum að ræða um veiðarnar, að veiðarnar hafa verið að breytast verulega á undanförnum árum í takt við það að ná sem allra mestu verðmæti út úr aflanum og ég kom að því í fyrri ræðu minni. Til dæmis hafa línuveiðar þróast þannig að frá fiskveiðiárinu 2002–2003 til fiskveiðiársins 2005– 2006 var þorskur veiddur á línu 21% af heildaraflanum árið 2002–2003 en er kominn upp í 37% árið 2005– 2006. Hér er auðvitað verið að reyna að uppfylla þá kröfu sem markaðurinn gerir um að fá sem hæst verð og menn eru auðvitað að leitast við það.

Ég sagði einnig áðan, hæstv. forseti, að mörg fyrirtæki sem væru háð því að fá allt sitt hráefni á fiskmarkaði, kaupa það sem sagt dýru verði, mjög dýru verði miðað við það sem er í hinum föstu viðskiptum, þau gerðu langmesta verðmætið fyrir hvert unnið kíló og ég stend við það. Það eru til fyrirtæki sem kaupa allt sitt hráefni á fiskmarkaði og þau gera langsamlega mesta verð á veitt kíló upp úr sjó, miðað við þær tölur sem ég hef séð. Þetta geta menn kynnt sér með því að fara í heimsókn í þau fyrirtæki sem eru eingöngu háð hráefni af fiskmörkuðum.

Við höfum vissulega verið að breyta veiðunum í takt við það að reyna að gera sem mest verðmæti en það er samt sem áður svo að við erum að taka 44% af þorskaflanum í botnvörpuveiðarfæri og það hefur eiginlega nokk haldist, herra forseti, þetta hlutfall hefur eiginlega verið óbreytt síðustu þrjú ár, hvert svo sem þorskaflamagnið í heild sinni var. Hins vegar hefur það skeð í þessu fiskveiðistjórnarkerfi að handfæraveiðarnar hafa nánast hrunið. Handfæraaflinn var 8% í þorski 2002–2003 en er kominn í 3%. Það hefur vissulega líka áhrif á fiskvinnsluna og framboðið á fiskmörkuðunum fyrir þær vinnslur sem ekki eru beinlínis tengdar útgerð.

Það er því að mörgu að hyggja í þessu og þess vegna er afar nauðsynlegt, herra forseti, og það skulu vera lokaorð mín í þessari umræðu, að fara vel ofan í þetta mál vegna þess að málið er mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að við ræðum þetta út frá staðreyndum og því sem við vitum best og reynum að átta okkur á því með hvaða hætti íslenska þjóðin fær mest verðmæti úr sjávarútvegi. Hvernig á að ná því fram? Og þá líka að ná því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson vék hér að áðan og ég tek undir, að þetta skiptir máli fyrir byggðina í landinu. Hinar minni sjávarbyggðir munu ekki halda velli í núverandi útfærslu í kvótakerfinu við núverandi aflamark til nokkurrar framtíðar, um það getum við verið sammála. Þess vegna ber okkur þingmönnum auðvitað að reyna með öllum leiðum að fá fram aðra niðurstöðu en við sitjum uppi með í dag.