135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:40]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar skilgreiningar á skrapdagakerfinu er sjálfsagt að hafa það eins nákvæmt og hægt er. Það kom réttilega fram hjá þingmanninum að annars vegar þurftu menn að halda skipum sínum til skrapveiða svokallaðra eða til veiða í öðrum stofnum en þeim sem við höfum verið að ræða hér um í þorskinum — eða þá að menn urðu að halda skipi í landi. Í því felst auðvitað sóun þegar á sama tíma var gríðarlegur hvati fyrir útgerðirnar til þess að auka við og fjölga skipunum af því að það var verið að keppa um að veiða úr einni tölu eða þ.e. að það var verið að keppa um það að veiða úr einum potti öllu heldur. Ef samkeppnisaðilinn bætti við sína sóknargetu þá var ekki nema eitt ráð til og það var sjálfur að bæta við hjá sér til þess að dragast ekki aftur úr í veiðikapphlaupinu. (Gripið fram í.)

Þetta þýddi það að meðferðin á afla var oft með ósköpum vegna þess að menn voru stundum að veiða mikið og hratt á ákveðnum tímabilum. Ég man eftir því sem strákur heima á Siglufirði þar sem ég var að vinna við að spyrða, einhvers staðar í kringum fermingu, að þá komu vörubílarnir keyrandi inn í skemmuna þar sem við vorum og sturtuðu þorski á gólfið og við drógum á eftir okkur hausara og vorum að spyrða þennan þorsk. Ég ætla að hlífa þingheimi við lýsingum á gæðum aflans sem þar var en ég er sannfærður um að þau verðmæti sem þar var verið að vinna hefðu getað orðið miklu, miklu meiri ef við hefðum þá verið komin með kerfi séreignarréttar þar sem hefði verið farið allt öðruvísi með aflann. Ég held að þeir sem til þekkja í greininni viti það að meðferð á fiski, bæði til sjós og til lands, er miklu betri núna vegna þess að þær breytingar sem hafa verið gerðar í sjávarútvegi ýta mönnum í það að hámarka tekjurnar fyrir aflann og lágmarka kostnaðinn, og það er lykilatriði við kvótakerfið.