135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[17:44]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ekkert einfalt mál að rífast við hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson um fiskveiðar, fáir menn hafa jafnmikla þekkingu á þeim málum og hann. Þó er það þannig að ég ætla að leyfa mér að vera ósammála honum hvað þann þáttinn varðar að ég tel að þegar fiskveiðarnar og fiskvinnslan breyttust úr því að reyna að keppa við hvor aðra um það að ná sem mestu magni sem hraðast úr takmörkuðum sameiginlegum potti í það að reyna að veiða það magn sem mönnum var úthlutað í gegnum kvótakerfið, eða keyptu sér síðar meir til þess að reyna að ná hámarksverðmætum þar, annars vegar með því að lágmarka kostnaðinn og hins vegar hámarka gæðin til að fá hámarksverð, þá tel ég að það hafi verið sú meginbreyting sem hafi leitt til þess sem við sjáum m.a. í afkomutölum í sjávarútvegi, að eftir mörg, mörg tapár snerist afkoma greinarinnar við og hefur nær öll árin frá því að kvótakerfið kom sýnt jákvæða afkomu og það er auðvitað það sem er lykilatriði í umræðunni.

Síðan getum við auðvitað alveg séð fyrir okkur og við eigum að leita að þeim breytingum sem þarf að gera á kerfinu til þess að bæta afkomuna. Sérstaklega höfum við rætt hér margsinnis um fiskveiðiráðgjöfina, vísindin þar á bak við, og ég er sannfærður um að við eigum eftir að gera það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hér í þessum sal. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á þeim orðum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar hvað varðaði sölu og markaðsstarfsemi að ég held að þar getum við verið sammála. Það var mikið til bóta hvernig greinin hefur orðið meðvituð um markaðsstarfsemi, um beinar sölur, og eitt af því sem hefur drifið greinina ágætlega áfram er akkúrat sú staðreynd að menn hafa tengt betur saman vinnsluna, veiðarnar og markaðsstarfsemina og þess vegna m.a. er sá sem hér stendur ekkert sérstaklega hrifinn af því að brjóta upp það kerfi og fara í það kerfi að hafa allan fisk á fiskmarkaði því að það mundi setja þetta kerfi í stóra hættu.