135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er víst fyrsta fyrirspurnin sem hæstv. viðskiptaráðherra svarar í þinginu og mér er mikill heiður að fá að flytja hana þó að umfjöllunarefnið sem í henni felst sé grafalvarlegt.

Hæstv. forseti. Í aðdraganda síðustu kosninga var frambjóðendum allra stjórnmálaflokka mjög hugleikinn hár flutningskostnaður á landsbyggðinni. Staðreyndin er sú að íbúar í landsbyggðinni hafa þurft að glíma við gríðarlega háan flutningskostnað á umliðnum árum sem er óviðunandi og þar af leiðandi hefur jafnræðis ekki verið gætt að fullu meðal íbúa landsins. Hár eldsneytiskostnaður er hluti af háum flutningskostnaði og hefur veruleg áhrif þar á. Þess vegna kom mér á óvart, hæstv. forseti, að ný ríkisstjórn skyldi setja á oddinn að leggja niður flutningsjöfnunarstyrki á eldsneyti. Það er ljóst að flutningskostnaður á til að mynda norðausturhorn landsins er gríðarlega hár en þessi breyting, ef af verður eins og boðað er í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, mun hækka eldsneytiskostnaðinn fyrir íbúa á m.a. norðausturhorni landsins mjög mikið.

Flutningskostnaður á norðausturhorn landsins er mun hærri en til að mynda á Vestfirði. Íbúar og samfélög á þeim svæðum glíma við mjög sambærilega erfiðleika í byggðalegu tilliti, líkt og Vestfirðingar gera. Það er gleðilegt að núverandi ríkisstjórn hyggist leggja fram 150 millj. kr. til að lækka flutningskostnað fyrir Vestfirðinga en við hljótum að velta því fyrir okkur í ljósi jafnræðis íbúa hér á landi hvort það sama eigi ekki að gilda með önnur svæði sem glíma við sambærileg vandamál og Vestfirðingar og borga jafnvel mun hærri flutningskostnað en þeir.

Það er einfaldlega ekki líðandi að við gerum þannig upp á milli íbúa á landsbyggðinni. Því ber ég fram tvær fyrirspurnir til hæstv. viðskiptaráðherra um flutningsjöfnunarstyrki:

1. Áformar ráðherra að beita sér fyrir tímabundnum flutningsjöfnunarstyrkjum til annarra landshluta en Vestfjarða, sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2008?

2. Mun afnám flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara hafa áhrif á verð á dísilolíu og bensíni á Þórshöfn, og ef svo er, þá hvaða?

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er hér um að ræða fyrstu fyrirspurn til hæstv. ráðherra og ég vona að niðurstaðan verði sú að jákvætt svar muni berast frá hæstv. ráðherra þegar hann stígur hér í fyrsta skipti í pontu og svarar fyrirspurn sem viðskiptaráðherra.