135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa prýðilegu umræðu um eitt af brýnustu málefnum landsbyggðarinnar, þ.e. kostnað við flutning vöru út á land og skert skilyrði sem landsbyggðin býr við að því leyti að vöruverð þar, verð á vörum og þjónustu, er hærra en hér á höfuðborgarsvæðinu og ýtir þar með undir að fólk flytji búferlum frá landsbyggðinni og til höfuðborgarinnar.

Það skiptir verulegu máli að jafna þessi skilyrði, lífsskilyrðin á landsbyggðinni og hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég taldi því rétt eftir athugun að leggja það ekki til að flutningsjöfnunarsjóður yrði lagður niður. Ég tel að það sé ekki að fullu kannað hvaða áhrif það hefði, sérstaklega á svæðum eins og Þórshöfn, sem hv. þingmaður nefndi áðan, þar sem eldsneyti er mun dýrara en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við munum taka það til skoðunar nú þegar að útfæra frekari tímabundinn flutningsjöfnuð til annarra svæða. Hvenær svo sem niðurstaða liggur fyrir í því máli þá munum við reyna að hraða þeirri vinnu. Það þarf að jafna stöðu landshluta eins og kostur er. Menntun, heilsugæsla, samgöngur, fjölbreytni í mannlífi og jafn aðgangur að grunnþjónustu eins og hún er best á hinu þéttbýla suðvesturhorni, skipta náttúrlega öllu máli til að bæta lífskjör á landsbyggðinni og byggja undir það að fólk vilji búa þar, að Ísland allt sé í byggð en ekki bara eitt lítið borgríki með dreifðum sumarhúsabyggðum úti á landi.

Hátt vöruverð og ósamræmi skiptir þar miklu máli. Það er því jákvætt þegar búð eins og Bónus, búðir eins og Krónan og Samkaup, segjast vera með sama vöruverð, burt séð frá því hvar búðin er staðsett, hvort hún er á Ísafirði, Akureyri eða Reykjavík. Við eigum að stuðla að því að svo verði um fleiri vöruflokka og sem flesta með flutningsjöfnunarstyrk (Forseti hringir.) þar sem á þarf að halda.