135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

erfðabreyttar lífverur.

71. mál
[13:53]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mun svara því sem lýtur að verkefnum okkar í umhverfisráðuneytinu í svari við fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman.

Eins og vitað er byggir íslensk löggjöf um erfðabreyttar lífverur á tilskipunum frá Evrópusambandinu sem okkur er skylt að innleiða samkvæmt samningnum við Evrópska efnahagssvæðið. Í regluverki Evrópusambandsins er varúðarreglan höfð í heiðri og strangari kröfur gerðar um öryggi og eftirlit með erfðabreyttum lífverum en víða annars staðar í heiminum. Evrópuríki búa í stórum dráttum við sambærilega löggjöf um erfðabreyttar lífverur, þar á meðal Ísland og Noregur vegna EES-samningsins. Það er sjálfsagt að skoða það hvernig Norðmenn hafa útfært sína löggjöf og vafalaust má eitthvað læra af þeim á því sviði.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um sérstaka óháða vísindastofnun þá tel ég varla efni til þess að setja upp slíka stofnun um rannsóknir á áhrifum erfðatækni hér á landi. Hér starfar ráðgjafarnefnd sérfræðinga um erfðabreyttar lífverur. Hún getur m.a. nýtt sér starf norskra og annarra rannsóknastofnana við mat á málum sem koma inn á hennar borð og varða hugsanleg áhrif erfðabreyttra lífvera á heilsu fólks og umhverfi hér á landi.

Ég hygg að það skipti mestu að búa vel að ráðgjafarnefndinni sem óháðum aðila og styrkja um leið starfsemi Umhverfisstofnunar á þessu sviði. Við í umhverfisráðuneytinu erum að undirbúa ákvörðun um að Ísland fullgildi Cartagena-bókunina um erfðabreyttar lífverur. Hún er gerð á grundvelli samningsins um líffræðilega fjölbreytni og við vinnum einnig að undirbúningi nauðsynlegra breytinga á löggjöf samfara því. Í Cartagena-bókuninni eru settar strangar reglur um upplýsingaskyldu, málsmeðferð og ákvarðanatöku um innflutning, ræktun, dreifingu og notkun erfðabreyttra lífvera, m.a. um útiræktun.

Hvað varðar aðra spurningu, um hvort hvetja eigi sveitarfélög til að lýsa sér svæði án erfðabreyttra lífvera þá er sveitarfélögum í sjálfsvald sett að setja sérstakar reglur varðandi erfðabreyttar lífverur. Það er hins vegar mitt hlutverk sem umhverfisráðherra að hafa umsjón með umgjörð þessara mála hér á landi og tryggja að umgjörðin samræmist hverju sinni skyldum okkar samkvæmt alþjóðlegum samningum og skuldbindingum og að kröfur um öryggi og upplýstar ákvarðanir standist.

Síðasta spurningin er um hvort ráðherra telji koma til greina að lýsa Ísland land án erfðabreyttra lífvera. Ég hef ekki hug á að beita mér fyrir slíku. Ég tel rétt að við eigum að fara varlega í notkun erfðabreyttra lífvera og tel að sú nálgun sé í þeim lögum og reglum sem nú gilda á Íslandi. Löggjöfin er hins vegar orðin 11 ára gömul og hana þarf auðvitað að endurskoða, m.a. vegna hraðra breytinga og framfara í erfðatækni og breyttrar umræðu og ekki síst til þess að fullnægja Cartagena-bókuninni sem ég minntist á áðan.

Í þessum efnum mun ég auðvitað hlýða á álit sérfræðinga, bæði ráðgjafarnefndarinnar og sérfræðinga Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar er það fólk sem besta yfirsýn hefur yfir þessi mál í stjórnkerfi okkar og ég mun að sjálfsögðu taka tillit til þeirra ráðlegginga um framhaldið.