135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

erfðabreyttar lífverur.

71. mál
[13:57]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin. Ég heyri að hæstv. ráðherra er vakandi í þessum efnum og ég hvet hana til þess að efla vísindanefndina sem er nú er starfandi, ráðgjafarnefndina sem óháðan aðila, til ráðgjafar fyrir stjórnvöld.

Í dag eru í gildi tilskipanir frá Evrópusambandinu varðandi erfðabreytta ræktun í landbúnaði og víðar sem byggir á varúðarreglunni. Ég tel að við höfum trassað að líta til þeirrar löggjafar og taka hana upp hér á landi. Sú tilskipunin, sem við eigum von á, er miklu strangari og á að byggja á varúðarreglunni og fjölbreytni.

Hér á landi er í undirbúningi að rækta utan húss í nokkrum mæli erfðabreytt bygg sem ætlað er til lyfjagerðar. Einnig er í undirbúningi og hugmyndir um að flytja inn erfðabreytta repju til að framleiða lífolíu og nota hratið eða úrganginn til fóðurgerðar.

Hér er margt í gangi fyrir utan það aðflutta fóður sem nú er flutt inn að mestu leyti erfðabreytt. Það er þannig að bændur og neytendur hafa enga möguleika á (Forseti hringir.) að átta sig á hvað af því fóðri eða vörum sem það neytir hefur verið framleitt með erfðabreyttum efnum.