135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

fjöldi landvarða og vinnutímabil þeirra.

101. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svör sem ég þykist vita að hún bæti við jafnvel enn hér á eftir. Ég ítreka að ég tel feikilega mikilvægt fyrir náttúruvernd í landinu að hér verði fjölgað stöðugildum landvarða og fjölgað heilsársstöðugildum þannig að fagfólk geti átt aukin tækifæri á því að gegna hlutverki landvarða að sumri til og vinna þá að fræðslu að vetri til þannig að þetta sé heilt starf því að ég tek undir með hv. þingmanni sem hér talaði áðan, Siv Friðleifsdóttur, að eðli þessa starfs hefur breyst dálítið. Það hvílir á þessu fólki mikil ábyrgð í ljósi þeirrar miklu umgengni um landið sem við teljum að eigi bara eftir að fara vaxandi.

Ég vil líka minna á það að innan skólastarfs eru breyttir tímar. Það er aukin áhersla á útikennslu, náttúrufræðslu og að lesa í náttúruna, eitthvað sem var auðvitað sjálfsagt að gera hér áður fyrr þegar við bjuggum hreinlega bara í allt öðru samfélagi en við búum við núna. Ég tel því að landverðir geti þar haft mjög mikilvægu hlutverki að gegna að efla útikennslu, náttúrufræðslu úti á vettvangi fremur en einungis upp úr bókum. Ég legg áherslu á að samhliða því að fjölga stöðugildum á friðlýstum svæðum verði einnig hugað að þessu verksviði, þ.e. að það sé fagfólk í þessu árið um kring og einnig horft líka á önnur svæði en þau sem friðlýst eru þó að ég skilji það að sjálfsögðu að forgangsröðunin hljóti að vera fyrst í þágu friðlýstra svæða.