135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

dreifing fjölpósts.

122. mál
[14:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Á síðasta umhverfisþingi var dreift riti sem lýsir stefnu stjórnvalda í umhverfismálum á næstu árum og þar kemur fram í kaflanum Sjálfbær þróun og neytendur, með leyfi forseta:

„Auka ábyrgð þeirra sem dreifa fjölpósti á kostnaði við söfnun og förgun úrgangs vegna fjölpósts en hann hefur aukist um 76% frá árinu 2003.“

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra út í það hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera til að auka ábyrgð þeirra sem dreifa fjölpósti og þyngja þannig byrðarnar fyrir okkur skattgreiðendur. Á síðasta ári bárust 176 kíló af pappír inn á hvert heimili í landinu. Þar af voru 32 kíló auglýsingapóstur og 144 kíló dagblöð. Þetta er auðvitað geysilega mikið magn og er 76% meira en árið 2003, á aðeins þremur árum hefur þetta vaxið svona gífurlega. Ég á frekar von á að dagblöðin séu með stóran hluta í þeim vexti. Það er ótrúlega mikið magn af fjölpósti sem gubbast inn um lúgurnar hjá fólki. Þetta kemur bara inn án þess að beðið sé um þennan póst.

Síðan þurfa neytendur sem fá allan þennan póst án þess að biðja um hann að borga fyrir það í gegnum skatta að koma honum í lóg. Kostnaður við endurvinnslu alls pappírs sem fellur til er í kringum 203 millj. en ef þessi pappír er urðaður er kostnaðurinn 404 millj. Það er því mun ódýrara að endurvinna pappírinn en urða hann og því er líka mikilvægt að sveitarfélög og stjórnvöld geri allt sem þau geta til að auka endurvinnslu, það er ódýrara. Á sama tíma og við sjáum allan þennan fjölpóst velta inn um lúgurnar hjá okkur er Íslandspóstur hættur að bjóða upp á litlu gulu miðana sem maður gat límt á lúgurnar hjá sér og sagt að fjölpóstur væri afþakkaður. Það er hætt að bjóða upp á þessa miða. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún þekki til þessa máls. Ég hringdi og vildi fá svona miða af því að minn gamli sem ég var með er dottinn af, en það er hætt að bjóða upp á þessa miða.

Ég velti því upp hvort hæstv. umhverfisráðherra sé með til athugunar hvort hægt sé að setja gjald, úrvinnslugjald á pappír, til að sá sem kemur þessu inn um lúgurnar hjá fólki sem ekki vill fá þennan póst, beri kostnaðinn, urðunarkostnaðinn eða endurvinnslukostnaðinn, þannig að þeir sem eru að ýta öllum þessum pappír að okkur skuli veskú borga fyrir að taka hann til baka.