135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

dreifing fjölpósts.

122. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki heldur á þessu með Íslandspóst, af hverju hann hætti með þessa miða. En það er auðvitað hugsanlegt að það sé vegna einhverra samkeppnissjónarmiða, af því að Íslandspóstur er að hugsa um sig. Svo eru aðrir einkaaðilar að dreifa öðrum pósti og þeir fara ekkert eftir einhverjum miða frá Íslandspósti o.s.frv., og auðvitað fær Íslandspóstur greitt fyrir að dreifa fjölpóstinum. Það getur verið að einhvers konar samkeppnissjónarmið séu í þessu. En alla vega fannst mér mjög vont að geta ekki fengið þennan miða til þess að reyna að hafna einhverju af þessum fjölpósti.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að skipa starfshóp sem á að skoða framleiðendaábyrgð eða úrvinnslugjald. Ég held að óhjákvæmilegt sé að við förum einhverja slíka leið. Úrvinnslugjald er sett á mjög margar vörur, sem verða að rusli síðar, og er það mjög glæsilegt kerfi. Ég ætla að leyfa mér að monta mig svolítið af því hér því að ég átti þátt í að skapa það kerfi. Það er frábært kerfi, hagrænn hvati til þess að minnka það magn sem sett er í umferð af viðkomandi vöru og í þessu tilviki af fjölpósti. Það er hagrænn hvati sem minnkar fjölpóstinn. Þá væri alla vega búið að greiða af þeim fjölpósti sem þrátt fyrir það yrði sendur út og af þeim sem ýta honum af stað. Það væri búið að greiða fyrir förgun hans eða endurvinnslu af réttum aðilum.

Það yrðum þá ekki við skattgreiðendurnir sem þyrftum að bera þann kostnað, borga talsverðar upphæðir í gegnum skattana okkar sem fara í að farga pósti sem við alls ekki báðum um og erum jafnvel mjög andsnúin. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að láta skoða þetta og vona að það verði gert fyrr en seinna. Ég býst við því að nú fyrir jólin muni þjóðin verða ansi þreytt á öllum þessum fjölpósti. Það er alveg ótrúlegt magn sem kemur inn og hefur vaxið um 76% á fjórum árum. Þetta er alveg ótrúlegt. Ég sé ekki að magnið sé að minnka um þessar mundir heldur að aukast.