135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

nettæling.

171. mál
[14:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Fyrir stuttu sýknaði héraðsdómur þrjá menn af ákæru um tilraun til kynferðisafbrots eftir að þeir höfðu nálgast einstakling, sem þeir töldu vera 13 ára stúlku, á netinu í kynferðislegum tilgangi. Dómurinn taldi að netsamskipti sakborninganna við þáttagerðarmennina sem höfðu lagt þetta mál upp gætu ekki talist vera sönnun um ásetning þeirra til að fremja kynferðisafbrot þótt þeir hefðu mætt á fund stúlkunnar.

Hér er til umræðu hvort tilraunaákvæði hegningarlaga dugi til að ná yfir svokallaða nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi. Samkvæmt héraðsdómnum virðist svo ekki vera. Í þessu máli var um að ræða brot sem var ekki fullframið en spurningin var hvort um væri að ræða tilraun til refsiverðs verknaðar en tilraun til refsiverðs athæfis er einnig refsiverð í sjálfu sér.

Fræðimenn hafa talið að íslensk og dönsk lög gangi lengra en löggjöf annarra ríkja í því að heimila refsiábyrgð fyrir undirbúningsathafnir þótt fjarlægar séu. Fræðimenn hafa einnig sagt að undirbúningsathöfn sem refsiverð tilraun geti t.d. verið tæling fórnarlambs á brotavettvang. Ef dómstólar landsins telja að ekki sé hægt að sakfella fyrir nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi á grundvelli tilraunarákvæðis hegningarlaga þurfum við að endurskoða lögin.

Aðrar þjóðir hafa sett í lög sérstakt refsiákvæði um nettælingu og má þar nefna Bretland, Noreg og Svíþjóð. Þá hafa þessi mál einnig verið rædd á danska þinginu.

Þann 5. júlí síðastliðinn skrifar hæstv. dómsmálaráðherra í Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Telji dómstólar unnt að refsa fyrir nettælingu á grundvelli þessa ákvæðis almennra hegningarlaga má segja að í íslenskum lögum sé að finna refsivernd gegn þessu ógnvekjandi athæfi gegn börnum. Komi í ljós að dómstólar telji lagaheimildir til refsingar ekki fyrir hendi er nauðsynlegt að bregðast við með nýju lagaákvæði og má þá líta bæði til Bretlands og Noregs.“

Hér má því segja að dómstóll í Kompássmálinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að lagaheimildir til refsingar séu ekki fyrir hendi og því þurfum við að huga að lagabreytingum. Ég geri mér grein fyrir að búið er að áfrýja málinu. En burt séð frá hugsanlegri niðurstöðu Hæstaréttar liggur engu að síður fyrir niðurstaða dómstóls í málinu sem staðfestir að hægt sé að túlka núgildandi lög á þann veg sem héraðsdómstóllinn gerir sem síðan hugsanlega býður hættunni heim á fleiri sýknudómum fyrir svipaða verknaði.

Því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann muni beita sér fyrir skýrari refsiheimildum um nettælingu gagnvart börnum í kynferðislegum tilgangi.