135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

nettæling.

171. mál
[14:50]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki sagt til um hvort þau mál sem nú eru fyrir dómstólum hefðu fallið undir þetta ákvæði í Noregi. Ég átta mig ekki á því. Það er mjög erfitt að líta á einstök mál og segja sem svo að lýsingar eins og þær eru lagðar fyrir dómara dugi, jafnvel þótt við hefðum þetta ákvæði um nettælingu í okkar lögum eins og í Noregi, um hvort málið sem nú er fyrir dómstólunum yrði dæmt á grundvelli þess ákvæðis. Ég get ekkert sagt um það. Um það getur enginn sagt.

Hins vegar hafa Norðmenn ekki tilraunaákvæði í sínum lögum með sama hætti og við. Danir sem hafa sambærilegt ákvæði og við hafa ekki talið nauðsynlegt að setja lög um nettælingu sérstaklega hjá sér. Það verður náttúrlega að skoða hvert mál fyrir dómstólunum fyrir sig. Dómarar geta lagt allt annað mat á það en við miðað við þær forsendur sem lagðar eru fyrir þá þegar þeir fjalla um einstök mál.

En það stendur sem ég sagði. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu, eftir þann málarekstur sem nú er, að það sé augljóst að tilraunaákvæði okkar dugi ekki í tilvikum sem þessum þá sé það nokkuð sem við munum skoða. Það er mikið samstarf á milli Norðurlandanna. Það verða fundir í byrjun desember sem ég mun sækja um þetta mál. Ríkislögreglustjórar hafa fjallað um málið, ríkissaksóknarar hafa fjallað um málið þannig að lögfræðingar skoða þetta mjög gaumgæfilega.