135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

tálbeitur í baráttu gegn barnaníðingum.

172. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Í fyrrnefndu Kompásmáli sýknaði héraðsdómur þrjá menn, m.a. á þeim grundvelli að ekki væri heimilt að nota tálbeitu til að kalla fram refsiverða háttsemi eins og var gert í því máli enda samræmdist það ekki þeim reglum sem gilda um notkun lögreglu á tálbeitum við rannsókn mála. Jafnframt var talið að vafi léki á því hvort heimilt hafi verið að byggja rannsóknina á gögnum Kompáss.

Niðurstaða dómstólsins um þessa tilteknu notkun fjölmiðla á tálbeitum er kannski rökrétt í ljósi núverandi laga. Málið vekur þó spurningar um hvort við ættum ekki að huga að lagabreytingum um tálbeitur og heimild lögreglu til að beita slíku.

Það er oft talað um tvenns konar tálbeitur, virkar tálbeitur og óvirkar tálbeitur. Óvirk tálbeita kemur fram sem einhvers konar agn í gildru sem sett er á svið, t.d. til að hafa hendur í hári árásarmanns. Er almennt talið heimilt að nota óvirka tálbeitu án þess að tiltekinn maður sé grunaður. Virk tálbeita kemur hins vegar ekki fram sem fórnarlamb heldur sem þátttakandi í broti manns sem aðgerð beinist að. Ef tálbeitan kallar fram brot sem ætla má að hefði ekki verið framið nema fyrir tilstilli hennar er hugsanlega komið út fyrir mörk lögmætra aðgerða í ljósi mannréttindasáttmála Evrópu.

Umræðan um tálbeitur hefur aðallega verið bundin við fíkniefnamál. Hins vegar tel ég að lögregla ætti að hafa sérstök úrræði í baráttunni gegn barnaníðingum. Í löggjöf okkar er víða tekið sérstakt tillit til barna með sérákvæðum. Ég er einnig sannfærður um að heimildir lögreglu til að nota tálbeitur gegn barnaníðingum mundu fæla hugsanlega gerendur frá þessu athæfi. Með því einu væri mikið unnið.

Danir hafa sett lagareglur um notkun á tálbeitum við rannsóknir sakamála. Þar er einungis heimilt að nota lögreglumenn sem tálbeitu og skilyrðið er að brotið varði a.m.k. 6 ára fangelsi. Mér finnst því rökrétt að íslenska lögreglan fái svipaðar lagaheimildir í baráttu sinni gegn barnaníðingum. Þetta er breyttur heimur og við verðum að horfast í augu við raunveruleikann. Kjarni málsins er sá að með því að heimila lögreglu notkun á tálbeitum í þessum tiltekna málaflokki mundum við auka réttarvernd barna til muna.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir heimild handa lögreglu til að beita tálbeitum í baráttu sinni gegn barnaníðingum.