135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

tálbeitur í baráttu gegn barnaníðingum.

172. mál
[14:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst svör hæstv. ráðherra vera ákaflega athyglisverð. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem í þeim kom fram. Það er eðlilegt að lögreglan hafi heimildir til að beita fyrir sig tálbeitu til þess að komast nær því að upplýsa mál eða brot sem hafa verið framin eða kunna að verða framin.

Mér leikur forvitni á að vita hvort aðilar úti í bæ, ótengdir lögreglunni og í þessu tilviki þáttagerðarmenn, megi taka að sér rannsóknar- og löggæsluhlutverk óumbeðnir. Er það heimilt samkvæmt gildandi lögum og er það ekki refsivert ef í ljós kemur að þeir sem þannig standa að málum séu að reyna að fá menn dæmda seka sem síðar reynast dæmdir saklausir?