135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

húsnæðismál lögreglustjórans á Suðurnesjum.

180. mál
[15:11]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Auðvitað þarf að setja inn í þau fjárlög sem eru í undirbúningi núna einhverja peninga til undirbúnings því verkefni að byggja nýtt húsnæði fyrir lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum. Það hlýtur að þurfa að gera það til að þoka þessu máli eitthvað áfram. Það vantar ekki bara peninga í nýtt húsnæði, það vantar peninga í rekstur á lögregluembættinu í Keflavík. Það vantar fjármagn svo að hægt sé að sinna almennilegri löggæslu í Grindavík, Vogum, Sandgerði og Garði vegna mikillar aukningar á starfsemi í flugstöð og umferð um flugstöð og vegna fjölgunar íslenskra ferðamanna um Suðurnesin út af Bláa lóninu, ýmsum söfnum og öðru sem hefur laðað fólk á Suðurnesin.