135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:23]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu hér og þakka svörin frá hæstv. ráðherra og þær upplýsingar sem koma hér fram. Á það hefur verið bent í umræðunni á umliðnum mánuðum og árum að þessi vegarkafli er orðinn einn sá versti sem við þekkjum í Suðvesturkjördæmi og við hv. þingmenn Suðvesturkjördæmis fundum fyrir því á yfirreið okkar um kjördæmið í kjördæmavikunni. Það er því ánægjulegt að heyra að þessum viðræðum við bæjaryfirvöld í Garðabæ þokar áfram.

En ég legg mikla áherslu á að við sjáum einhver merki líka í fjárveitingum í þetta verkefni því ég vil minna á umræðuna sem fór fram varðandi samgönguáætlun á þinginu í vor þegar sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu kvörtuðu yfir því að það vantaði fé til vegagerðar hér á höfuðborgarsvæðinu.