135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:24]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur því það er rétt sem hún sagði hér í upphafi að þetta mál brennur mjög á sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi og þá sérstaklega í Garðabæ.

Ég sem Garðbæingur tek heils hugar undir að það skuli litið til stokkalausnar í þessu samhengi. Þetta er ekki bara spurningin um að koma fólki fram og til baka heldur er þetta spurning um lífsgæði og framtíðarsýn. Við þurfum að koma í veg fyrir að bær eins og Garðabær verði skilinn enda á milli eða langsum öllu heldur, með sex akreina hraðbrautum. Þannig að ég fagna þessu. Við þurfum að hugsa stórt og vera stórhuga í þessum málum.