135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

Hafnarfjarðarvegur.

167. mál
[15:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara í eitthvert þyngdartal enda veit ég ekki hvernig það mundi fara, a.m.k. á milli mín og hv. þm. Gunnars Svavarssonar. En varðandi þungavigtaryfirlýsingar sem gefnar eru þá má spyrja: Var þá engin þyngd í því sem gert var á síðasta ári hjá þingmönnum kjördæmisins þar sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sat í stjórn, við það að búa til samgönguáætlun þar sem áætlaðar voru í þetta verk á næsta ári 400 millj. og ekki krónu meira? Það dugar skammt í það verk sem hér er verið að tala um nema það sem var lagt af stað með í upphafi sem gefur sama flæði í gegnum þessi gatnamót eins og ef lagt væri í stokk.

Það er augljóst að það þarf að auka umferðarflæðið þarna í gegn þannig að þarna séu ekki stíflur og spurningin er því einfaldlega þessi: Hvort er betra að gera það með stokk eða þeirri lausn sem Vegagerðin hefur lagt til?

Það er mikið rætt um stokkalausnir en þær eru mjög dýrar. Ég skil sjónarmiðin vel sem hafa komið fram og þar ber sérstaklega að hafa í huga umferðarþungann sem hér er, þar sem fólk situr allt of lengi í biðröðum í umferðarteppu og eyðir tíma, sem er þjóðhagslega mjög óhagkvæmt. En ég er dálítið hugsi yfir því hvað eigi að gera við stokkana því ef það er hugsunin að byggja ofan á þeim þá er auðvitað spurningin, hver eigi að fá tekjurnar sem koma ef byggja á ofan á viðkomandi veg sem ríkið byggir yfir. Er það þá ríkissjóður eða viðkomandi sveitarfélag, sama hvort það heitir Garðabær eða eitthvað annað, á sveitarfélagið að taka að sér veginn og fá það sem kemur þar ofan á í tekjur til sín?