135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

eignir Ratsjárstofnunar.

156. mál
[15:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg hér fram fyrirspurn til utanríkisráðherra um eignir Ratsjárstofnunar. Ég geri þetta fyrir hönd og með varaþingmanni, Birni Val Gíslasyni, sem sat hér fyrir Steingrím J. Sigfússon um þriggja vikna skeið. Eftir heimsókn okkar þingmanna Norðausturkjördæmis um kjördæmið í kjördæmavikunni heyrðum við í mörgum sveitarstjórnarmönnum. Við heyrðum m.a. í fulltrúum Langanesbyggðar sem lýstu ástandi í sínu sveitarfélagi, atvinnuástandi og íbúaþróun. Það hafði verið þungt högg fyrir það fámenna sveitarfélag að Ratsjárstofnun skyldi verða lögð niður á Gunnólfsvíkurfjalli.

Þessi starfsemi hafði vegið þungt hvað varðar íbúaöryggi, búsetu fólks á hinum litla stað Bakkafirði og yfir á Þórshöfn. Með brottflutningi ratsjárstöðvarinnar og þeirra sem við hana unnu álitu sveitarstjórnarmenn að þau hús sem höfðu verið íbúðarhús þessara starfsmanna gætu hugsanlega nýst ef hægt væri að stuðla að nýrri atvinnustarfsemi á svæðinu.

Sveitarstjórnarmenn og íbúar svæðisins vissu ekki betur en Ratsjárstofnun ætti þessi íbúðarhús. Eftir að starfsmennirnir voru farnir hafði sveitarstjórn samband við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra og óskaði eftir því að húsin yrðu ekki seld nema í góðu samráði við sveitarstjórn þar sem verið væri að vinna að hugsanlegri annarri atvinnustarfsemi á svæðinu og því mikilvægt að hafa þessi hús til umráða. Í ljós kemur svo nú í septembermánuði að búið er að selja húsin. Ratsjárstofnun átti ekki húsin heldur fjárfestingarfélagið Lýsing sem var þá búið að selja húsin beint fyrir framan nefið á sveitarstjórnarmönnum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvernig var staðið að sölu eigna Ratsjárstofnunar á Gunnólfsvíkurfjalli, hverjum voru eignirnar seldar og hvert var söluverðið?

2. Var haft samráð við sveitarfélög í grennd um ráðstöfun eignanna og hugsanlega nýtingu þeirra?