135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

þjónusta við aldraða.

175. mál
[15:48]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna ummælum hæstv. heilbrigðisráðherra og er fyllilega sammála honum í því efni að ekki sé eftir neinu að bíða í að gera þjónustu við aldraða enn betri en hún er nú þegar.

Ég er fullkomlega sannfærð um það og er þeirrar skoðunar að þessi þjónusta eigi að vera á einni hendi til að koma í veg fyrir að einstaklingur eða einstaklingar falli á milli laga, á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég er þeirrar skoðunar, sem er í takt við stefnuyfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins sem hv. fyrirspyrjandi las upp úr, að nærþjónustunni sé betur fyrir komið á hendi sveitarfélaga.

En fyrst og síðast er ég sammála ráðherranum í þeim efnum og fagna því að hann hafi þegar tekið til hendinni og sé að undirbúa umbætur og góð verk í þessum málaflokki.