135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[10:59]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst málflutningur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vera ys og þys út af engu. Það er álitamál hvað nákvæmlega á að koma fram í áliti allsherjarnefndar og hvað ekki. Ný vinnubrögð fela í sér að allsherjarnefnd fer nánar yfir skýrsluna með umboðsmanni og hefur lýst vilja til að þróa þessi vinnubrögð frekar.

Það er hins vegar allt annað mál hvort nefndin sem slík fer að gera tillögur um einstök úrlausnarefni í þessum efnum. Þar getur verið um að ræða mál sem heyra undir verkefnasvið fjölmargra nefnda þingsins. Það er því ekki sjálfgefið að slík atriði séu tekin til í áliti allsherjarnefndar.

Raunar er það svo að skýrsla umboðsmanns er lögð fyrir þingið allt. Allsherjarnefnd hefur verið skapað ákveðið rými til að fjalla nánar um skýrsluna. Síðan kemur skýrslan til umræðu í þinginu og menn geta rætt þau atriði út frá skýrslunni sem þar liggur fyrir og raunar út frá þeirri framsöguræðu sem ég flutti áðan, sem ég hygg að sé ítarlegri en áður hefur verið af sama tilefni.

Það er sá grundvöllur sem umræðan á að byggjast á. Ég hafna því að allsherjarnefnd hafi með einhverjum hætti staðið fyrir ámælisverðum vinnubrögðum í þessu sambandi þó að ég viðurkenni að þessi vinnubrögð megi þróa áfram. En stóryrði um ámælisverð vinnubrögð eiga á engan hátt við.