135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka umboðsmanni Alþingis fyrir vel unnin störf á árinu 2006 og fyrr. Ég held að skýrslan sem hér liggur fyrir sé órækur vitnisburður um að vel hafi verið að verki staðið almennt séð þótt ýmislegt megi betur fara. Ég get vel viðurkennt að ég hefði kosið að þetta álit væri ítarlegra og tekið á fleiri þáttum. En í störfum á þingi er oft tímaleysi og fljótaskrift á hlutum. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. formanni nefndarinnar að í nefndarstörfum okkar ákváðum við að móta okkur vinnureglur um hvernig við tækjum á þessari skýrslu, hvernig við skiluðum nefndarálitum og hvort við reyndum að ná samstöðu um álitið eða ekki. Ég held að í þetta skipti hafi niðurstaðan orðið sú að skila hreinlega stuttu áliti sem samstaða væri um. Á næsta ári verður örugglega breyting á því og ítarlegri sjónarmið koma fram.

Skýrslan er afar umfangsmikil og mikill lestur í henni. Ég hygg að þetta nýmæli sem hér er á borð borið, af þeirri litlu reynslu sem á það er komin, sé til bóta. Við höfum eins og hv. formaður allsherjarnefndar, Birgir Ármannsson, lýsti, bæði átt fund með umboðsmanni á starfsstöð hans og eins kom hann á fund nefndarinnar. Þar komu fram upplýsingar og tillögur og margt fleira sem ég hygg að birtist í ræðum þeirra sem taka til máls í dag og hafa þegar komið fram í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar. En við verðum betri á næsta ári, vonandi.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. formaður nefndarinnar sagði um skýrsluna. Ég lít svo á að umboðsmaður Alþingis gegni afar veigamiklu hlutverki í íslensku lýðræði. Ég lít svo á að umboðsmaður Alþingis sé einn af hornsteinum íslensks lýðræðis ásamt stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og þá Ríkisendurskoðun, ef ég tel hana síðast. Af því hef ég reynslu. Réttarumhverfi, stjórnsýsla og annað hefur á síðustu 20 árum gjörbreyst með þeim lögum sem ég nefndi og með umboðsmanni Alþingis. Bara fyrir mig, starfandi sem lögmann er aðstaðan allt önnur og betri.

Þegar embættið var sett á stofn mun embættismaður í einu ráðuneytinu hafa sagt: Nú þarf maður að fara að svara þessum kverúlöntum sem eru að skrifa okkur. Það var nefnilega þannig að ríkið eða ríkisstofnanir hirtu ekki um að svara og hirtu ekki um að rökstyðja. Menn skyldu gjarnan horfa til baka og rifja upp stöðu mála áður en þessar gagnmerku réttarbætur komu til. Umboðsmaður hefur skilað verulegum árangri og hefur um margt lagað stjórnsýsluna þótt ýmislegt mætti betur fara, sem hann bendir sjálfur á og hefur bent á undanfarin ár.

Af skýrslunni er að sjá að umboðsmanni gangi þokkalega að afgreiða kvartanir. Fjöldi kvartana, erinda og fyrirspurna og afgreiðslur kvartana sýna að embættið stendur þokkalega að því leyti. Þó er ýmislegt sem umboðsmaður gagnrýnir í framkvæmd stjórnsýslunnar. Fyrst og fremst má segja að gagnrýni umboðsmanns lúti m.a. að því að stjórnvöld skipuleggi sig ekki fyrir fram, séu ekki nógu meðvituð um að setja sér fyrir fram gegnsæjar reglur, sem borgararnir geti gengið að, um hvernig þau eigi að haga málsmeðferð, hvernig þau eigi að beita reglum stjórnsýslulaga o.s.frv. Því er enn ábótavant, stjórnsýslan er enn tilviljunarkennd í mörgum tilfellum. Umboðsmaður bendir jafnframt á að fræðslu skorti til stjórnenda ríkisstofnana, þ.e. að þegar nýir starfsmenn koma inn sé þeim hreinlega leiðbeint, þeir fari í skóla í stjórnsýslulögunum.

Stjórnsýslulögin eru ekki flókin. Fyrir þá sem lesa þau eru þau ekki flókin en þetta er eilíft umkvörtunarefni umboðsmannsins, að fræðslan komist ekki til skila til starfsmanna. Ég heyri á tóni umboðsmanns hreinan pirring í þeim efnum, ekki endilega á fundum með nefndinni en ég hef hlustað á hann fjalla um fræðslumál á semínari.

Hann kvartar líka undan því, sem hv. formaður allsherjarnefndar Birgir Ármannsson kom inn á, að mál séu leidd til lykta með samningum. Auðvitað þurfa ríkið og ríkisstofnanir að gera mikið af samningum en það er verið að leiða mál til lykta með samningum, sem er að því leyti röng aðferð vegna þess að vilji stjórnsýslunnar og vilji ríkisins á að birtast í reglum og ákvörðunum. Þegar reglur og ákvarðanir liggja fyrir á að byggja samninga á þeim. Ég kem betur að því síðar.

Umboðsmaður kvartar enn yfir því að jafnræðisreglunni sé ekki nógsamlega fylgt og að meðalhófsreglunnar sé ekki gætt. Þar bendir umboðsmaður sérstaklega á ráðstöfunarfé ráðherra, eins og menn muna að var í fréttum í sumar. Þar er ekki gengið út frá fyrir fram gegnsæjum reglum. Ég get bent frú forseta á að við hér á Alþingi stöndum frammi fyrir sama vandamáli. Ég sat nefndarfund í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd nýverið og við ræddum um það hvert við ættum að beina 47 eða 50 millj. kr. safnliðum á umsækjendur. Ég upplifði það að við vorum að úthluta tilviljunarkennt, úthluta án þess að við settum okkur fyrir fram gegnsæjar reglur, án þess að ákveða forganginn fyrir fram, hvaða verkefni við legðum meiri áherslu á en önnur og hreinlega flokkuðum þau fyrir fram.

Ég verð að segja að safnliðaafgreiðsla sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem eflaust fleiri nefndir í þinginu standa frammi fyrir, fór fyrir brjóstið á mér og þeirri tilfinningu sem ég hef fyrir jafnræði og meðalhófi. Ég ætla ekki að deila á einstakar fjárveitingar nefndarinnar. Það dettur mér ekki í hug en ég veit að við gætum legið undir hörðu ámæli ef menn bera saman einstakar úthlutanir í þessum safnliðum, ef við setjum það í samhengi og jafnvel sleppum af þeim nöfnunum, þá mundi ég lenda í vandræðum með að útskýra sumt út frá jafnræðisreglunni. Af hverju fékk þessi en ekki hinn? Af hverju fékk þessi minna en hinn meira? og þar fram eftir götunum.

Það vekur ánægju að viðbrögð stjórnvalda við ábendingum umboðsmanns Alþingis eru góð. Sú þróun hefur orðið á síðustu 20 árum en algengt var að ráðherrar hreinlega hunsuðu tilmælin. Nú heyrir það til undantekninga. Ég ítreka það sem kemur fram í skýrslunni á bls. 16, að það skortir fræðslu um stjórnsýslulög, upplýsingalög og réttarstöðu borgaranna, fræðslu til stjórnenda ríkisstofnana.

Það er einn merkilegur þáttur í skýrslunni sem m.a. má sjá á bls. 16 og áfram. Það eru svokölluð frumkvæðismál sem umboðsmaður Alþingis fjallar um í skýrslu sinni. Þau eru afar mikilvægur þáttur og svo virðist sem umboðsmaður Alþingis feti sig frekar inn á þessa braut. Frumkvæðismálin voru sex árið 2006 en eru nú orðin 15 á þessu ári. Ég hygg að styrkja verði umgjörð og fjárveitingar til umboðsmanns Alþingis vegna slíkra frumkvæðismála. Síðasta og þekktasta frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis er fyrirspurn hans til Reykjavíkurborgar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur, vegna hins svokallaða REI-máls, sem er afar merkilegt inngrip.

Ef maður sviptir af sér flokkspólitískri þoku og horfir faglega á þetta eru viðbrögð umboðsmanns Alþingis að mínu mati til fyrirmyndar í þessu máli. Í þessu máli vöknuðu afar margar mikilvægar og merkilegar spurningar um framkvæmd stjórnsýslu, um hvernig sveitarfélag með almannaveitu á sínum vegum getur samið við einkahlutafélag og allt í einu rofið stjórnsýslutengslin. Tímans vegna mun ég ekki rekja það mál en frumkvæði umboðsmanns var gott.

Annað mál sem hv. formaður kom inn á er ÖBÍ-málið. Þar stöndum við frammi fyrir spurningunni: Eigum við hv. alþingismenn að skipta okkur af því eða á Alþingi að beina tilmælum til umboðsmanns? Erum við að fara inn á sjálfstæði hans? Ég lít ekki svo á. Hann er umboðsmaður Alþingis. Við getum haft tilmæli. Öryrkjabandalagið gekk á fund umboðsmanns, við nefndum þetta á fundi með umboðsmanni, á nefndarfundi, og það er samdóma álit okkar að leggja til að umboðsmaður taki þetta mál upp sem frumkvæðismál. Hann hefur sjálfur áhuga á því og telur ekki að með því skerðum við sjálfstæði hans. En við leggjum til að veita sérstaka fjárveitingu í þetta vegna þess að þetta er brýnt almennt mál. Þetta varðar geðsjúka fyrst og fremst, sem almennt hafa ekki hafa tök á að gæta réttar síns. Málið varðar það hvort framkvæmdin sé nógu góð, hvort réttindi öryrkja komist til skila, hvort þeir geti gætt réttar síns o.s.frv. þannig að þetta er almenn og brýn athugun. Ég styð að því að veita sérstaka fjárveitingu til þessarar almennu athugunar, sem yrði auðvitað frumkvæðisathugun umboðsmanns því að hann getur valið og hafnað. Við getum sett fram tilmæli um eitt og annað en auðvitað er umboðsmaður sjálfstæður í störfum sínum. Við skipum honum ekki fyrir, hvorki um hvaða verkefni hann tekur að sér né hvaða niðurstöðum hann kemst að.

Ég vil nefna eitt að lokum og það eru áhyggjur umboðsmanns Alþingis af því sem hann kallar að þróunin sé að grugga vatnið, hann talar um afkima stjórnsýslunnar. Hvað á umboðsmaður við? Jú, hann á við hlutafélagavæðingu, hann á við opinber hlutafélög. Hann segir að réttarrammi þeirra sé ekki nógu góður. Ég vil bæta við það og segja að stjórnsýslan hefur ekki fyllt inn í þessi hlutafélög, Matís og mörg fleiri. Hann heldur því fram að lagaumhverfið um opinberu hlutafélögin dugi ekki og ég tek fyllilega undir það. Ég hef sjálfur sagt að það eigi að einkavæða stjórnsýslulögin og upplýsingalögin. Ég held því fram að þau þurfi að ná yfir stórfyrirtækin. Póstur og sími fóru í einkarekstur og fjöldi annarra fyrirtækja veita borgurum þjónustu án þess að við höfum andmælarétt, upplýsingaréttinn og annað af því tagi. Þessi stóru fyrirtæki sem veita þjónustu, almanna- og grunnþjónustu, eiga ekki að vera yfir það hafin að neytandinn spyrji og fái upplýsingar. Alls ekki.

Það er áhyggjuefni, eins og hv. formaður allsherjarnefndar benti á, að efnisreglur verða í 23,4% tilfella umtalsefni eða kvörtunarefni. Það er gagnrýni, frú forseti, sem beinist að þinginu. Lagagrundvöllur stjórnvaldsákvarðana er 27,3% tilefna umkvartana. Það segir mér að styrkja verði löggjafarvaldið, Alþingi, styrkja lagasetninguna. Ég ítreka það sem ég minntist á í upphafi að við afgreiðum lög oft í fljótræði. Ég hygg að vandi Alþingis liggi fremur í innra skipulagi þess en ræðutíma við 2. umr., ef ég má nefna það sem dæmi. Það er hægt að bæta Alþingi og gera það skilvirkara með margvíslegum öðrum hætti án þess að breyta þingsköpum, það segir mér reynsla mín sem varaþingmaður og nú sem þingmaður á haustdögum og í sumar. Þetta er áhyggjuefni og þetta þurfa forsetar Alþingis að skoða til hlítar.