135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:19]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikil þörf á að einkavæða stjórnsýslu- og upplýsingalögin gagnvart stóru fyrirtækjunum, þau eiga ekki við um einkarekstur. Það er verið að færa opinbera þjónustu yfir í einkarekstur. Talað er um að úthýsa verkefnum í stórum stíl. Það er talað um að einkafyrirtæki taki að sér opinbera þjónustu við borgarana.

Þarna er fullt af gráum svæðum, bæði varðandi opinberu hlutafélögin og önnur einkahlutafélög sem taka að sér opinbera þjónustu við borgarana, og á því sviði verðum við að styrkja grundvöll umboðsmanns Alþingis. Við verðum að styrkja, víkka og endurskoða valdsvið umboðsmanns Alþingis. Á það hefur umboðsmaður Alþingis sjálfur bent þó að hann hafi ekki sagt að hann vilji einkavæða stjórnsýslulögin eins og ég sagði. Hann notaði ekki þau orð en hann talaði um þoku og um afkima stjórnsýslunnar. Og fjármálaeftirlit eða samkeppniseftirlit er ekki nægjanlegt í þeim efnum.