135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:20]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þm. Atli Gíslason er sérstaklega að tala um svið þar sem verið er að færa opinbera þjónustu yfir í einkarekstrarlegt umhverfi þá er auðvitað klárt að þar þarf að vanda til verka. Enginn deilir um það. Það snýst um það að í þeim tilvikum þegar verkefni eru færð, hvort sem er með útvistun, með stofnun opinberra hlutafélaga um eitthvað tiltekið svið eða þjónustusamning eða annað, þá er alltaf fyrir hendi eitthvert stjórnvald sem á að hafa eftirlit með viðkomandi starfsemi sem einkaaðilarnir geta þá rekið. Þetta er auðvitað í þróun en ég held hins vegar að eftirlit umboðsmanns hljóti alltaf að beinast að þeim aðilum innan stjórnsýslunnar sem eiga að hafa eftirlit með viðkomandi starfsemi. Þeim ber síðan skylda til að hafa eftirlit með því að þeir einkaaðilar sem taka að sér tiltekin verkefni uppfylli þau skilyrði sem þeim eru sett.

Hins vegar get ég alveg tekið undir að þær kröfur sem hið opinbera gerir til aðila sem taka að sér verkefni sem flokka má undir þjónustu við almenning þurfa að vera skýrar. Það má ekki liggja í lausu lofti, það má ekki vera á gráu svæði. En ég get ekki tekið undir ummælin um að einkavæða eigi stjórnsýslulögin. Við hv. þm. Atli Gíslason erum á öndverðum meiði um einkavæðingu í flestum tilvikum og líka í þessu. Hann vill halda því hjá ríkinu sem ég vil einkavæða og öfugt.

Við getum hins vegar áreiðanlega verið sammála um að þegar um útvistun eða þjónustusamning eða annað slíkt er að ræða skiptir máli að kröfurnar sem gerðar eru til einkaaðilanna sem framkvæma þjónustuna séu skýrar og skilmerkilegar og að fyrir hendi sé eftirlit hjá þeim stjórnsýslulegu aðilum sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokki á þeirri starfsemi, þannig að (Forseti hringir.) þetta gangi eins og til er ætlast.