135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[11:56]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þau orð sem hv. þm. Atli Gíslason viðhafði í umræðunni, umboðsmaður Alþingis gegnir afar mikilvægu hlutverki og er einn af hornsteinum íslensks lýðræðis. Það er einu sinni svo hvað varðar öll embætti að þar veldur hver á heldur og sem betur fer hefur mjög vel tekist til fram að þessu varðandi mannaval í embætti umboðsmanns. Hér liggur fyrir vönduð og ítarleg skýrsla um það sem umboðsmaður hefur verið að fást við á árinu 2006 sem álit allsherjarnefndar vísar til og við höfum verið að fjalla um.

Taka má undir ýmislegt í athugasemdum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna þeirra umræðna sem urðu eftir ræðu hv. framsögumanns allsherjarnefndar, hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er æskilegt að allsherjarnefnd skili í framtíðinni fyllra og ítarlegra áliti þannig að það geti orðið til að stytta umræður hér um skýrsluna. Hafa nokkrir nefndarmenn í allsherjarnefnd vakið athygli á því. Með ítarlegra áliti gæti nefndin væntanlega skipað sér einn talsmann sem færi yfir þau álitaefni sem fram kæmu og nefndin hefði þá gengið frá fyrir fram. Þetta væru sjálfsagt skilvirkari og betri vinnubrögð og til þess fallin að stytta umræður. Þá lægju fyrir í hnotskurn helstu atriði sem allsherjarnefndarmenn vilja koma á framfæri og telja nauðsynlegt að víkja að fyrir þá þingmenn sem ekki vilja fara í að lesa yfir alla skýrslu umboðsmanns. Ég tek þó fram að ég tel hverjum þingmanni hollt að gera það.

Vikið hefur verið að ýmsum þeim atriðum sem ég ætlaði að fjalla um og þar af leiðandi get ég stytt mál mitt þó að ég geti eftir sem áður nýtt allan ræðutímann. Ég staldra fyrst við umfjöllun umboðsmanns um frumkvæðismál, á bls. 17 og 18 í skýrslunni, þar sem getið er um hvaða mál umboðsmaður fjallaði um. Ég fæ ekki betur séð en að í mörgum tilvikum hafi verið nauðsyn á því að umboðsmaður beitti sér með þeim hætti vegna þess að stjórnsýslan og löggjafarvaldið hafði hreinlega ekki sinnt málum sem báðir þessir aðilar hefðu þurft að koma að fyrir fram en ekki eftir á. Fjögur þeirra atriða sem umboðsmaður taldi nauðsynlegt að þessir aðilar hefðu frumkvæði að tengjast aðstöðu útlendinga sem hingað koma til lengri dvalar þannig að þeir njóti almennra mannréttinda og geti nýtt rétt sinn. Í fyrsta lagi er það spurningin um framkvæmd reglna um gildi skólagöngu barna sem hingað hafa komið með erlendum foreldrum, í öðru lagi málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna veitingar dvalarleyfa til EES-borgara, í þriðja lagi innheimtugjald fyrir afgreiðslu umsagna með EES-dvalarleyfi og í fjórða lagi framkvæmd Vinnumálastofnunar á löggildri skráningu einstaklinga sem hingað koma frá nýju EES-ríkjunum. Ég hef ítrekað vakið athygli á að íslensk stjórnvöld og íslensk stjórnsýsla hafi verið algerlega óundirbúin að taka á þessum málum svo að þess væri gætt að eðlilegir hlutir gerðust í þjóðfélaginu og girt yrði fyrir að mannréttindi væru brotin á því fólki sem hingað kemur til lengri dvalar og til vinnu og komið í veg fyrir að um víðtæk félagsleg undirboð væri að ræða.

Það er samt sem áður að gerast í þjóðfélaginu í dag, það bera fréttir í dagblöðum gjarnan með sér. Enn er verið að misbjóða erlendu verkafólki sem hingað kemur. Öllum varnaðarorðum — um að gætt sé að því að stjórnvöld hlutist til um að hafa eftirlit og umsjón með því að þessir hlutir gerist á þann veg að hægt sé að fylgjast með því að fólksstreymið sé með þeim hætti að ekki komi til félagslegra undirboða — hefur venjulegast verið snúið við. Snúið hefur verið út úr þeim og reynt að halda því fram að þar væri á ferðinni málflutningur sem væri til þess fallinn að valda þeim sem hingað koma erfiðleikum. Þvert á móti er nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli. Stjórnsýslan og löggjafarvaldið á að setja eðlilegar reglur, og þá umgjörð sem nauðsynleg er, um réttindi þess fólks sem hingað kemur. Allir sem koma til landsins til lengri dvalar njóta mannréttinda og okkur ber að gæta þess að þeim sé fylgt. Því verður að ætlast til þess að félagsmálaráðherra fylgi eftir því átaki sem hún byrjaði á fyrir nokkru — það hefur greinilega ekki skilað nægilega miklum árangri — í því skyni að koma í veg fyrir að mannréttindi séu brotin á þeim sem dvelja í landinu.

Ég staldra líka við, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði að umtalsefni, umfjöllun umboðsmanns, á bls. 23–30 í skýrslunni, um samninga. Umboðsmaður gerði í umfjöllun í allsherjarnefnd ítarlega grein fyrir vandamálum sem færast í vöxt, þ.e. þegar framkvæmdarvaldið kemur að málum og útdeilir verkefnum með samningum til ákveðinna aðila. Oft og tíðum háttar þá þannig til að hin pólitíska umræða, stjórnmálaumræðan um þörfina á þjónustunni, hefur ekki farið fram. Ekki hefur verið rætt um það hverjir eigi að njóta þjónustunnar, þeir hlutir eru með einum eða öðrum hætti lagðir í hönd þess aðila sem samið er við. Það er í sjálfu sér ekki skilvirk stjórnsýsla. Það býður ekki upp á að jafnræðisreglu sé fylgt og gerir allt eftirlit með þeim aðilum sem um er að ræða, og m.a. eftirlit umboðsmanns Alþingis, mun erfiðara. Þessar athugasemdir umboðsmanns þarf að skoða sérstaklega. Alþingi þarf að athuga að ekki sé af hálfu framkvæmdarvaldsins verið að taka fram fyrir hendur löggjafarvaldsins, ganga frá og binda í samningum ákveðnar fjárheimildir og fjárveitingar án þess að um það hafi verið fjallað á réttum vettvangi.

Í þessu sambandi vísar umboðsmaður m.a. til þess, á bls. 24 í áliti sínu, að áhyggjuefnin séu m.a. vegna þess að í fyrsta lagi hafi samningar verið gerðir án þess að skýr lagaheimild Alþingis hafi legið fyrir. Hann vísar í öðru lagi til þess að stjórnvöld fari þessa leið þrátt fyrir að lög geri ráð fyrir að þau leiði mál til lykta með hefðbundnum ákvörðunum eða samkvæmt reglum sem þau setja. Í þriðja lagi vísar hann til þess hvenær samningar komist á og hvenær þeim sé slitið, hvaða réttindi borgararnir njóti í reynd, jafnvel þótt lög geri ráð fyrir að sú aðstoð eða þjónusta standi til boða. Þetta er atriði sem vikið er að og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson gerði grein fyrir þessu þannig að ég ætla að taka undir þau sjónarmið sem hann rakti í ræðu sinni og gera þau að mínum. Ég vil vekja athygli á lokaorðum, á bls. 30, í skýrslu umboðsmanns hvað þetta varðar. Þar segir, með leyfi forseta, að „það kunni að rýra réttaröryggi sem hinum hefðbundnu stjórnsýslureglum er ætlað að veita borgurunum að fara þá leið sem hér er verið að fjalla um,“ að ganga frá samningum við aðila um framkvæmd þeirra atriða sem borgararnir eiga rétt á að sé sinnt vegna þeirra og spurning hvort verið sé að rýra réttaröryggi sem hinum hefðbundnu stjórnsýslureglum er ætlað að veita borgurunum.

Löggjafarvaldið hlýtur að staldra við og skoða hvað nauðsynlegt er að gera til að stemma stigu við því að framkvæmdarvaldið taki frumkvæðið og í raun valdið af löggjafarvaldinu með þessum hætti. Ég hygg að það sé verðugt verkefni fyrir okkur sem sitjum í allsherjarnefnd, sem og aðra þingmenn, að hyggja vel að þessu atriði. Ég leyfi mér því að gera þetta að umtalsefni á sama tíma og ég tek undir sjónarmið hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Nauðsynlegt er að þingmenn átti sig á alvarlegu inngripi framkvæmdarvaldsins sem stundum er gert fyrir fram án þess að heimildir löggjafarvaldsins og fjárveitingavaldsins liggi fyrir.

Ég vil einnig víkja að atriðum sem fram koma á bls. 36 í skýrslu umboðsmanns. Þar er fjallað um það að iðulega hafi þurft að gera athugasemdir við ákvæði laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla. Hann rekur það síðan í skýrslunni í hve mörgum tilvikum á árunum 2002–2006 hafi þurft að gera athugasemdir við sett lög sem fram komu frá Alþingi auk stjórnvaldsfyrirmæla. Þegar það er borið saman við þau lönd sem við miðum okkur oftast við hvað þetta varðar, Danmörku og Noreg, kemur í ljós að vandamálið er að nokkru leyti séríslenskt fyrirbrigði. Svo virðist sem við vöndum ekki nægilega vel til lagasetningar. Þessi ummæli og ábendingar umboðsmanns eru áskorun til Alþingis um að vanda til verka hvað þetta varðar, sinna betur þeirri skyldu sem Alþingi er falin að lögum. Þessi atriði finnst mér skipta mestu máli fyrir okkur alþingismenn að skoða sem löggjafarvaldið í landinu, þ.e. þetta inngrip framkvæmdarvaldsins í það sem á að gerast hjá löggjafarvaldinu áður en framkvæmdarvaldið grípur inn í, þ.e. þá samninga sem framkvæmdarvaldið er að gera. Í öðru lagi talaði ég um það að of oft þarf að gera athugasemdir við sett lög sem Alþingi hefur afgreitt. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að standa þannig að málum.

Virðulegi forseti. Full ástæða hefði verið til að fjalla um fleiri atriði. Ég tel í sjálfu sér óþarfa að rekja einstök mál. Út frá félagslegum áhuga hefði ég haft gaman af að fjalla um skylduaðild að Félagi fasteignasala en það verður að bíða betri tíma. Ég tel ástæðu til að færa umboðsmanni þakkir fyrir góða og ítarlega skýrslu og vel unnin störf. Þær ábendingar sem þar koma fram, og ég hef gert að umræðuefni, eigum við þingmenn að taka til okkar. Við eigum að ganga þannig frá málum að umboðsmaður þurfi ekki ítrekað að gera athugasemdir við þau störf sem okkur er ætlað að rækja.