135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[12:39]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vekja athygli á í ræðu minni er þessi erfiða sambúð þessara tveggja lagabálka og það sem umboðsmaður hefur verið að vekja athygli á undanfarin ár og dómafordæmi Hæstaréttar hafa verið að þróa líka, þ.e. hversu ríkar málsmeðferðarreglur verði að gera t.d. við meðferð starfsmannamála þannig að það samrýmist stjórnsýslulögunum.

Eftir því sem slíkum dómafordæmum vindur fram þá held ég að þessi umgjörð sé orðin miklu, miklu meira takmarkandi heldur en löggjafinn stefndi að þegar starfsmannalögin voru samþykkt 1996 eða 1997. Ég tel þess vegna fulla ástæðu til að aðskilja þetta tvennt. Ég held að stjórnsýslulögin séu mjög mikilvæg og mjög skynsamlegur lagabálkur og leggi mjög eðlilegar skyldur á stjórnsýsluna í þeim tilvikum þegar stjórnsýslan á í beinu sambandi við borgarana um réttindi þeirra og skyldur.

Ég tel einfaldlega að starfssamband atvinnurekenda og starfsmanna jafnt í hinum opinbera rétti sem annars staðar sé annars eðlis og því eigi að undanskilja skyldur ríkisins eða vinnuveitanda starfsmannalögunum.

Síðan held ég að það sé sjálfstætt athugunarefni að horfa á hver á að vera réttargrundvöllur réttarverndar opinberra starfsmanna og hver mörk réttarverndar opinberra starfsmanna eigi að vera. En ég ítreka það sem ég sagði áðan. Í sem ríkustum mæli eigum við að hafa sama lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Við eigum að hafa sömu réttarreglur á vinnumarkaði fyrir alla landsmenn.

Það er ekkert skynsamlegt að hafa þannig lífeyriskerfi að opinberir starfsmenn geti ekki hugsað sér að skipta um starf eftir fimmtugt. Það er algjörlega fráleitt. Við eigum að hafa opinn og einfaldan vinnumarkað og hafa sem líkastar reglur og hafa svo takmarkaða réttarvernd þar sem hennar er nauðsynlega þörf.