135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[12:42]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svarað því til að það er bjargföst skoðun mín að við eigum að horfa á þetta fyrirkomulag frá grunni. Við verðum að taka alvarlega þau teikn sem eru á lofti. Við verðum að búa opinberum stofnunum þannig rekstrarumgjörð að hún sé skynsamleg. Það er fullkomlega rökrétt að það sé tiltekin meiri réttarvernd fyrir tiltekna æðstu embættismenn ríkisins sem fara sérstaklega með opinbert vald og stefnumörkun til þess að þeir geti varist pólitískri misbeitingu valds.

Eitt af álitunum sem nefnt er í áliti umboðsmanns snýr að hagræðingaraðgerðum í Fasteignamati ríkisins. Hverjir eru almannahagsmunirnir af því að þannig reglur gildi um starfsmenn slíkra stofnana? Ég tel einfaldlega að sem flestar af þessum sjálfstæðu ríkisstofnunum eigi að losna undan þessari umgjörð.

Ég held líka að það væri mikilvægt ef hægt væri að vekja almenna umræðu í samfélaginu um þetta mál og mér finnst eðlilegt að við reynum að skapa ákveðna sátt um slíkt heildstætt fyrirkomulag á vinnumarkaði þannig að réttindi og skyldur falli saman. Síðan er líka mikilvægt að byggja upp að eins miklu leyti og hægt er eitt og sama réttarumhverfið fyrir alla í landinu, þannig að við höfum einn og sama vinnumarkaðinn til þess að tryggja eðlilegt flæði fólks og eðlilega möguleika fólks og koma í veg fyrir að við sköpum stéttskipta forréttindastöðu.