135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:31]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að færa umboðsmanni Alþingis þakkir fyrir vel unna og greinargóða skýrslu. Ég, líkt og margir aðrir sem hafa tekið hér til máls í dag, tel embætti umboðsmanns Alþingis eina af grunnstoðum í íslensku lýðræðisþjóðfélagi og met embættið mikils.

Ég verð því að fagna því sérstaklega að fram kemur í skýrslunni að það heyri til undantekninga að stjórnvöld bregðist ekki við og hlíti tilmælum umboðsmanns. Hins vegar tek ég undir málflutning hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að ekki sé nóg að hlíta tilmælum, það skipti líka máli hvernig talað er um embættið og hvaða svör eru veitt þegar verið er að ræða um álit umboðsmanns. Ég held að það sé gífurlega mikilvægt að embætti umboðsmanns sé sýnd virðing og að sé ekki grafið undan embættinu með orðum sem sýna ekki nægilega virðingu.

Þess vegna langaði mig að ræða um það sem kom fram í fréttatíma Ríkisútvarpsins 11. apríl sl. en þar var fjallað um álit umboðsmanns Alþingis er fólst í því að menntamálaráðuneytið hefði án heimilda í lögum látið nemendur á tónlistarbrautum framhaldsskóla greiða fyrir tónlistarnámið. Ég hjó sérstaklega eftir því í þessari frétt að rætt var við hæstv. menntamálaráðherra og ummæli fengin frá henni. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Við munum að sjálfsögðu fara vel yfir þetta þykka og mikla álit eða skoðun umboðsmanns.“

Ég tel þessi ummæli ekki sýna embætti umboðsmanns nægilegan sóma, því að í mínum augum er álit umboðsmanns Alþingis svo miklu meira en einungis skoðanir eins aðila úti í bæ.

Virðulegur forseti. Mig langar að lokum að fjalla um eitt atriði sem ég sakna í skýrslu umboðsmanns Alþingis en það er viðamikið brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands, brot sem hefur verið viðvarandi í áratugi og er nú mál að linni. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að allir skuli vera jafnir að lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis. Konur og karlar eiga að njóta jafns réttar í hvívetna. Engu að síður er það staðreynd að kynbundinn launamunur er á bilinu 14–18% þegar borin eru saman laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Með kynbundnum launamun er að sjálfsögðu brotið í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Fleiri staðreyndir um misrétti kynjanna liggja fyrir. Heildaratvinnutekjur kvenna eru að jafnaði um 60% af atvinnutekjum karla. Heildaratvinnutekjur kvenna meðal opinberra starfsmanna eru um 86% af atvinnutekjum karla og konur eru aðeins um eða yfir 20% af forstöðumönnum ráðuneyta og ríkisstofnana, svo fátt eitt sé nefnt.

Ljóst er að lagasetningar hafa ekki dugað til og sértækar aðgerðir hafa heldur ekki skilað þeim árangri sem stefnt var að. Þetta hefði ég gjarnan viljað lesa um í skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég hef að vísu fullan skilning á því að vegna m.a. takmarkaðra fjármuna getur umboðsmaður Alþingis ekki tekið á öllu að eigin frumkvæði en þetta væri spennandi lesning á næsta ári.