135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2006.

215. mál
[13:52]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það vekur athygli í skýrslu umboðsmanns, þegar fjallað er um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, að eins og ég sagði fyrr, að í maí 2006 biðu 86 erindi úrlausnar sem komin voru fram yfir lögmætan afgreiðslutíma. 1. janúar 2007, tæplega ári síðar, eru það 75 mál. Málunum hefur ekki fækkað nema um níu sem komin eru fram yfir lögboðinn afgreiðslutíma. Það segir mér að málin séu að þyngjast og þau taki lengri tíma. Þessi litla fækkun verður þrátt fyrir að sett sé inn aukafjárveiting til nefndarinnar og ráðinn lögfræðingur til að grynnka á þessum málum. Ég held að menn þurfi að fara í töluvert mikið átak ef takast á að fækka þessum málum þannig að við sjáum ekki tugi erinda sem bíði svo lengi úrlausnar.

Rétt í lokin, herra forseti, þá háttar þannig til á Alþingi eftir síðustu alþingiskosningar að óvenjumargir sveitarstjórnarmenn sitja á Alþingi, sveitarstjórnarmenn sem hafa reynslu af því að vinna með úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Ég er alveg viss um að hvar svo sem í flokki menn standa þá munu þeir þingmenn snúa bökum saman því að þetta ástand getum við ekki liðið og því verður að breyta.