135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Gunnars Svavarssonar um Ríkisendurskoðun, um hlutverk hennar og stöðu og mikilvægi þess að starf hennar geti verið sem öflugast og virkast.

Það sem vakti athygli mína og ég vildi inna hv. þingmann eftir er starfsemi Ríkisendurskoðunar. Hér á landi er stærri hluta starfseminnar varið til endurskoðunar á reikningsskilum ríkisstofnana eða ríkisaðila en minna unnið að stjórnsýsluúttektum. Miklar breytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum á opinberri þjónustu með einkavæðingu, markaðsvæðingu, útvistun á verkefnum og svo framvegis. Síminn var seldur og einkavæddur og hlutafélag stofnað um Íslandspóst en samt er fjarskiptaþjónustan áfram grunnþjónusta sem allir horfa til.

Væri ef til vill rétt að við beindum því til Ríkisendurskoðunar að taka meira fyrir stjórnsýsluúttektir, stöðu þjónustustigsins, frekar en að horfa svo mikið til peninganna innan einstakra stofnana. Er verið að standa vörð um þá almannaþjónustu sem ríkinu ber?

Það er mikilvægt mál. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum flutt beiðni um sérstaka skýrslu um áhrif markaðsvæðingar og einkavæðingar á almannaþjónustunni (Forseti hringir.) sem Ríkisendurskoðun hefur að okkar mati ekki sinnt sem skyldi.