135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Athugasemdir mínar og fyrirspurn til hv. þingmanns lutu einmitt að því að hlutfall fjárhagsendurskoðunar er fremur hátt hjá Ríkisendurskoðun miðað við flestar aðrar systurstofnanir í nágrannalöndum okkar. Í öðrum löndum láta sambærilegar ríkisendurskoðanir og stofnanir sér yfirleitt nægja úrtök. Hjá þeim er hlutur stjórnsýsluendurskoðunar aftur á móti oftast stærri en hér á landi.

Stjórnsýsla úttektarinnar er í sjálfu sér stórmál eins og hv. þingmaður ýjaði að í lok máls síns áðan, ekki síst í ljósi hinnar taumlausu einkavæðingar og markaðsvæðingar á almannaþjónustu í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar sem er ógæfa að mínu mati. Sú þjónusta er almenningi alveg jafnmikilvæg hvort sem hún er einkavædd eða ekki og því er enn nauðsynlegra að henni sé fylgt eftir. Hún getur verið í formi hlutafélaga í eigu ríkisins að hluta til. Hún getur verið í samkrulli ríkis og einkaaðila eða alveg í höndum einkaaðila.

Þarna mætti gera mun betur og nauðsynlegt að það sé gert. Þess vegna höfum við, þingmenn Vinstri hreyfingar – græns framboðs, flutt beiðni um að unnin verði sérstök skýrsla um áhrif markaðsvæðingar og einkavæðingar sem taumlaust hefur riðið húsum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum. Er það vegferð til góðs fyrir almenning? Oft kemur kostnaðurinn samt (Forseti hringir.) niður á skattborgaranum beint eða óbeint.