135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:26]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að reyna að skilja hvað hv. þm. Jón Bjarnason, félagi minn og vinur, er að fara. Ég held að niðurstaðan sé einfaldlega sú að hv. þingmaður sé að benda á að gera þurfi sérstaka skýrslu um úttekt á einkavæðingu á vegum ríkisins.

Ég skildi það sem svo áðan að hv. þingmaður væri að boða, samanber 4. gr. laga um Ríkisendurskoðun, nr. 86 frá 1997, að Ríkisendurskoðun sé heimilt að fela löggiltum endurskoðendum eða öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði að vinna að einstökum verkefnum sem stofnuninni er falið í lögum þessum eða öðrum lögum. Það þýðir einfaldlega að hv. þm. Jón Bjarnason var þá að boða útvistun á fleiri fjárhagsendurskoðunarverkefnum til þess að stofnunin hefði enn frekari tækifæri til stjórnsýsluendurskoðunar.

Mér fannst hv. þingmaður bíta í skottið á sjálfum sér með þessu. Að lokum skildi ég að hv. þingmaður átti einfaldlega við skýrslu sem vinstri grænir hafa óskað eftir en ég bendi þá á lög um Ríkisendurskoðun. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að við skiptum okkur ekkert af því hvort Ríkisendurskoðun bjóði út verkefnin.

Í 3. gr. umræddra laga segir:

„Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum. Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.

Starfsmenn Ríkisendurskoðunar skulu í einu og öllu óháðir ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá.“

Ég held að málið skýri sig þannig, herra forseti, og Ríkisendurskoðun fer fram með sín verkefni eins og þeir hafa gert hingað til.