135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:28]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér hefur hv. þm. Gunnar Svavarsson kynnt ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2006 ásamt stuttu nefndaráliti sem fjárlaganefnd var sammála um gagnvart þeirri skýrslu. Ég tek undir að það er mikilvægt að slíkar stofnanir sem umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun starfi og fleiri slíkar stofnanir mættu starfa á vegum eða í skjóli Alþingis sem væru sjálfstæðar bæði gagnvart framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu. Það er mikill styrkur fyrir lýðræðið í landinu sem er jú hornsteinn þingræðisins. Við höfum fyrr í dag fjallað um skýrslu umboðsmanns Alþingis og fjöllum nú um skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ég held að það sé ágætt áður en við komum að öðrum efnisatriðum að vitna hér til svokallaðrar Líma-yfirlýsingar eins og gert er í skýrslu ríkisendurskoðunar sem hæstv. forseti þingsins vitnaði til í morgun en þar segir, með leyfi forseta:

„Í Líma-yfirlýsingunni er skýrt kveðið á um mikilvægi þess að ríkisendurskoðunum sé veitt nauðsynleg lögvernd gegn hvers kyns afskiptum sem gætu haft áhrif á sjálfstæði þeirra og möguleika til að sinna endurskoðunarstörfum. Í þessu felst m.a. að þær hafi fullkomið sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldinu og stofnunum þess, þ.e. að þær séu að öllu leyti óháðar þeim aðilum sem endurskoðað er hjá og þeim stjórnvöldum sem þær heyra undir. Þetta felur bæði í sér fjárhagslegt sjálfstæði og að ríkisendurskoðanirnar hafi sjálfar verulegt frumkvæði að því hvernig þær velja viðfangsefni sín og standa að endurskoðunarstörfum sínum. Sömuleiðis þurfa þær að vera óbundnar af fyrirmælum eða beiðnum annarra, jafnvel þegar þær starfa í umboði löggjafarvaldsins og sinna endurskoðunarstörfum að fyrirmælum þess.

Þær kröfur um sjálfstæði og óhæði sem hér eru nefndar koma skýrt fram í núgildandi lögum um Ríkisendurskoðun. Þar er ekki aðeins greint frá meginhlutverki stofnunarinnar, skyldum og verkefnum, heldur einnig lögð á það rík áhersla að hún sé „engum háð í störfum sínum“ og að starfsmenn hennar „skulu í einu og öllu óháðir þeim ráðuneytum og stofnunum sem þeir vinna að endurskoðun hjá“. Einnig er bent á að stofnunin ákveði sjálf „hvar og hvenær endurskoðað er“. Forsætisnefnd Alþingis getur að vísu krafið stofnunina skýrslna um einstök mál sem falla undir starfsemi hennar en í þeim tilvikum ákveður hún sjálf efnistök sín.

Sjálfstæði og óhæði Ríkisendurskoðunar er tvímælalaust meginforsenda þess að hún njóti trausts í samfélaginu og geti sinnt eftirlitshlutverki sínu þannig að ekki leiki vafi á hlutleysi hennar og trúverðugleika. Þessa stöðu hlýtur stofnunin að ítreka í öllu starfi sínu. Það gerir hún best með því að fylgja í hvívetna þeim lögum og reglum sem gilda um hana og almennt viðurkenndum endurskoðunarstöðlum.“

Ég álít það mikilvægt að við höfum þetta stöðugt í huga varðandi þetta og það hve mikilvægt er að boðleiðir séu bæði skýrar og afmarkaðar í þessu þannig að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar sé tryggt. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á það eins og kemur fram í 11. gr. laga um Ríkisendurskoðun.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Nú ákveður Ríkisendurskoðun að beita skoðunarheimildum skv. 7. og 9. gr. “ — þ.e. heimildar til bæði fjárhags- og stjórnsýsluendurskoðunar — „og skal stofnunin þá gera fjárlaganefnd og þeim þingnefndum, sem viðkomandi málaflokkur fellur undir, grein fyrir niðurstöðum sínum. Þingnefndir geta samkvæmt nánari reglum sem forsætisnefnd setur og haft frumkvæði að athugunum samkvæmt þessum lagaákvæðum.“

Einnig er kveðið á um í þessari 3. gr. laganna að forsætisnefnd getur þá ýmist bæði að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Ég segi þetta vegna þess að það er mjög mikilvægt bæði að standa vörð um þetta sjálfstæði stofnunarinnar og einnig um skýrar leiðir að stofnuninni þannig að sjálfstæði hennar til að taka upp mál á eigin forsendum séu alveg klár en að hún lúti ekki boðvaldi frá öðrum stofnunum, að enginn geti farið að panta að stofnunin taki eitthvað upp.

Ég segi þetta að gefnu tilefni en á síðastliðnu sumri var mikið rætt um svokallað Grímseyjarferjumál og þá sagðist einn þáverandi og núverandi ráðherra mundu skrifa Ríkisendurskoðun bréf og biðja hana um að gera stjórnsýsluúttekt á ákveðinni ríkisstofnun. Þessar boðleiðir eru að mínu viti ekki réttar. Auðvitað er öllum frjálst að senda bréf til Ríkisendurskoðunar en það er mikilvægt að það skapist ekki neinn þrýstingur frá framkvæmdarvaldinu eða öðrum stofnunum, sem eru þó á vegum ríkisins, á Ríkisendurskoðun heldur fari slík erindi í gegnum forsætisnefnd eins og hefðir og lög gera ráð fyrir. Þetta vildi ég nefna í upphafi.

Það var aðeins vikið að því hér í ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar hvernig kröftum Ríkisendurskoðunar er varið og ég legg þunga áherslu á að Ríkisendurskoðun þarf að hafa fjármagn til að geta sinnt bæði fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun sem hún telur þörf á, ef það eru færð rök fyrir að þurfi. Þess vegna hnýt ég um þetta að meginþungi Ríkisendurskoðunar hér á landi hefur einmitt beinst að fjárhagsendurskoðun frekar en að stjórnsýsluendurskoðun.

Það hafa miklar breytingar átt sér stað hér á landi á síðustu árum, mikil einkavæðing og það hafa orðið miklar breytingar í almannaþjónustunni sem er mikilvæg grunnþjónusta, í því sambandi má nefna einkavæðingu og sölu Landssímans. Áfram er stærsta og mesta og hin almenna krafa af hálfu íbúa landsins jafnt aðgengi að fjarskiptaþjónustu, bæði hvað varðar verð og gæði. Hluti af þessu er kominn í hendur einkaaðila á markaði, hluta af þessu er ríkið enn þá með ábyrgð á og ætlar sér að gera í gegnum fjarskiptastjórn en nær ekki þeim árangri sem íbúunum var lofað. Ég hugsa að flest bréf eða flestar kvartanir sem koma til þingmanna víðast hvar á landinu lúti einmitt að fjarskiptamálum og það að þar sé ekki staðið við fyrirheit og væntingar sem gefin eru þannig að fólk býr ekki við jafnrétti.

Ég vil nefna fleiri slík dæmi. Við erum með Íslandspóst hlutafélagavæddan. Hv. þm. Atli Gíslason kom inn á þetta í umræðunni um umboðsmann Alþingis, að það væri verið að búa til hlutafélög um grunnþjónustu, grunnalmannaþjónustu sem síðan lyti ekki neinum almennum stjórnsýslulegum eftirlitslögum, upplýsingalögum o.s.frv. Íslandspóstur er orðinn hlutafélag, hann er samt með mjög mikilvægt hlutverk, hann er með það hlutverk að sinna póstþjónustu á jafnaðargrunni um allt land. Hann á að veita þjónustu á jafnræðisgrunni, en gerir hann það? Ég hefði gjarnan talið að það væri ástæða t.d. til að gera stjórnsýsluúttektir á hlutafélagavæddum þjónustuverkefnum sem lúta bara að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Höfum við öll sama aðgang að póstþjónustu?

Það stendur í lögum um póstþjónustu, með leyfi forseta:

„Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að alls staðar á landinu sé alla virka daga borinn út póstur sem fellur undir skilgreiningu á alþjónustu nema kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindri slíkt.“

Ég hef bréf undir höndum frá hreppsnefnd Reykhólahrepps þar sem kvartað er undan því að allt í einu komi tilkynning um að það eigi að skera póstþjónustu niður í tvo eða þrjá daga í viku. Í bréfinu frá þeim segir, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn mótmælir harðlega allri fyrirhugaðri skerðingu á póstþjónustu í sveitarfélaginu vestan Bjarkarlundar og krefst þess að áfram verði borinn út póstur þar fimm daga vikunnar eins og verið hefur.“ — Og eins og fyrrnefnd lög kveða á um.

Í öðru bréfi sem við nokkrir þingmenn fengum úr Stykkishólmi eru menn aftur á móti að velta fyrir sér hlutverki Íslandspósts þar sem hann er að setja upp verslun með pappír og eins og segir í bréfinu, að bjóða til sölu alls konar skrifstofuvörur, ritföng, tölvuvörur, föndurvörur, geisladiska og smávægilegt af bókum. Í Stykkishólmi er einn kaupmaður sem rekur slíka verslun og á í sjálfu sér í vandræðum með að reka hana. Allt í einu kemur Íslandspóstur og býður þar til sölu sömu vörur og eru í þessari einu verslun sem kaupmaðurinn sem býr á staðnum og hefur búið þar lengi, hefur verið með. Erum við á réttri leið þarna, að samtímis því að póstferðir í Reykhólahreppi séu skornar niður sé verið að keppa um sölu á bókum og skrifstofuvörum við heimamann á staðnum?

Mönnum finnast þetta kannski ekki stór dæmi en ég tek þau af því að þau eru einföld og skiljanleg og ég legg mikla áherslu á að ég ber mikla umhyggju fyrir því að fyrirtæki eins og Íslandspóstur geti sinnt þjónustu sinni sem póstdreifingarfyrirtæki og farið þar að lögum. Ég velti því fyrir mér með fleiri slík fyrirtæki sem hafa verið einkavædd hvort þau standist þá kröfu um þjónustu sem við gerum til þeirra. Þau eru komin í hlutafélög, við náum ekki til þeirra í gegnum Alþingi, við náum ekki til þeirra í gegnum nefndir þingsins, við náum ekki til þeirra inni í ráðuneytum, þau eru komin út fyrir. Samt er þjónustan sem þeir eiga að veita íbúunum alveg jafnmikilvæg og byggir á hornsteinum stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglunnar, að allir eigi þar sama rétt.

Í lokin vil ég benda á eitt varðandi fjárhagsendurskoðun. Fjármálaráðuneytinu er falið að skila með hverju frumvarpi ríkisstjórnarinnar eins konar áliti um hvað það kostar að taka það í notkun, hvað það kostar að samþykkja slíkt frumvarp. Það er hluti af veigamiklum forsendum þegar Alþingi er að samþykkja lög, en væri ekki athugandi að kanna þessa vinnu? Ég minnist þess t.d. að þegar samþykkt voru lög hér í fyrra um stofnun háskóla á Hvanneyri og formlega á Hólum var sagt að það mundi kosta 60, 70, 80 milljónir. Alþingi samþykkir lögin en peningarnir koma ekki.

Þegar búið var til hlutafélag úr Flugstoðum, flugvellir landsins voru einkavæddir og flugleiðsöguþjónustan sömuleiðis, búið til hlutafélag, þá var sagt í umsögn fjármálaráðuneytisins að það kostaði ekki neitt. Við erum á móti þessari einkavæðingu, við erum á móti því að einkavæða flugvelli landsins. Samt er það keyrt í gegn. Nú kemur í ljós að þetta fyrirtæki fær ekki einu sinni að ég held almennilega kennitölu, fær ekki rétt til þess að vera með virðisaukaskattsbókhald, þetta er bara hrein ríkisstofnun, en við höfum engin tök á að veita því það eftirlit sem hægt er vegna þess að þetta er komið í hlutafélagsform og þess vegna komið undan almennum upplýsingalögum.

Ég get nefnt fleiri fyrirtæki sem hafa verið stofnuð með þessum hætti, gefnar rangar hugmyndir um hvað það kosti. Tökum sem dæmi Matís sem var hlutafélagavætt og sagt að það mundi ekki kosta neitt. Það var nefnt að bara vegna fórnarkostnaðarins við að stofna hlutafélag um það væri nú á fjárlagabeiðni á annað hundrað millj. kr. Við getum einnig nefnt Landbúnaðarstofnun o.s.frv.

Það eru því margir þættir (Forseti hringir.) bæði hvað varðar stjórnsýslu og fjárhagsmál sem ég tel mikilvægt, herra forseti, (Forseti hringir.) að fylgst sé með og minni þá á orðin um hlutfall á milli reikningsendurskoðunar og stjórnsýsluendurskoðunar.