135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:45]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alveg rétt með farið hjá hv. þingmanni að ég hafi sagt að hæstv. ráðherra hefði ekki haft heimild til að gera þetta, að sjálfsögðu hefur hann það. En ég lagði áherslu á það sem stendur í lögunum um Ríkisendurskoðun þar sem segir í 3. gr., með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun er engum háð í störfum sínum.“ — Svo kemur: „Forsætisnefnd getur þó ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum þingmanna krafist skýrslna um einstök mál er falla undir starfsemi Ríkisendurskoðunar.“

Síðan stendur annars staðar að Ríkisendurskoðun geti að sjálfsögðu og hefur eðlilega tekið upp mál á eigin forsendum.

Sú regla hefur verið innan þingsins, að ég best veit, að hafi þingmenn eða þingmannahópar áhuga á að koma málum með formlegum hætti til Ríkisendurskoðunar hafa þau farið sem erindi í gegnum forsætisnefnd og hún hefur síðan lagt mat á erindið og sent það áfram til úrvinnslu.

Ég er ekki að segja að það geti ekki allir sent bréf en ég er að benda á hversu gríðarlega mikilvægt það er að boðleiðir séu skýrar og staðinn sé vörður um Ríkisendurskoðun sem sjálfstæða og óháða stofnun sem starfi á eigin forsendum og þess vegna getur líka þurft af hálfu Alþingis, eins og gert er í lögunum, að verja það umhverfi. Ég þekki umræðuna á undanförnum þingum sem bæði hefur lotið að Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis þar sem aðilar framkvæmdarvaldsins hafa reynt með ýmsum hætti að koma heldur sterkum sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi störf og afgreiðslur beggja þessara aðila.