135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:49]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Samstarf Ríkisendurskoðunar bæði við Alþingi, þingnefndir og framkvæmdarvald er eðlilega mjög náið. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að standa vörð um samskiptaleiðir, boðleiðir, og hver beri ábyrgð á hverjum stað.

Að sjálfsögðu getur hver og einn sent erindi til Ríkisendurskoðunar og ég treysti ríkisendurskoðanda fullkomlega til að meta hvort taka eigi mál þar upp með þeim hætti sem hann ákveður, því að ríkisendurskoðandi hefur það í hendi sér hvort hann tekur við málinu, með hvaða hætti hann vinnur o.s.frv. Ég treysti hæstvirtum — ég var nærri farinn að titla ríkisendurskoðanda hæstvirtan sem væri svo sem allt í lagi en ég treysti honum til þess. En þinginu, sem á að veita ríkisendurskoðanda þetta skjól, þessa stöðu, þessa vernd, ber líka að standa vörð um að t.d. framkvæmdarvaldið eða einstakir þingmenn eða aðrir sem geta haft aðgang að ríkisendurskoðanda í gegnum þingið, banki ekki með óeðlilegum hætti á, að þeir geti farið sínar boðleiðir, farið hinar hefðbundnu boðleiðir sem lögin gefa reyndar vísbendingu um að fara eigi með mál þ.e. fyrir forsætisnefnd sem leggur það fyrir ríkisendurskoðanda. (Forseti hringir.) En að sjálfsögðu metur ríkisendurskoðandi það alltaf sjálfstætt sjálfur hvort hann tekur mál upp og með hvaða hætti.