135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[14:52]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hægt er að byrja á því að gefa skýrslunni sem við fjöllum hér um þá einkunn að þetta sé mjög góð skýrsla enda frá góðri stofnun. Fjárlaganefnd var mjög samstiga í áliti sínu á þessu ágæta plaggi. Raunar er hægt að bæta við þá umsögn að ríkisendurskoðandi, hvort heldur hann er, miðað við orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar, háttvirtur eða hæstvirtur ríkisendurskoðandi, er líka alls góður maklegur í þessu máli, enda af ætt Haukdæla og þeir menn eru engin aukvisar.

Mig langar til að víkja að stöðu stofnunarinnar í þessu sambandi, ég tel að það sé réttur tími til að ræða um stöðu Ríkisendurskoðunar í stjórnkerfi okkar við þessar aðstæður. Nokkuð hefur verið rætt um það hér fyrr hverjir eigi að hafa heimild til að vísa málum til ríkisendurskoðanda. Það er auðvitað hægt að hafa á því mismunandi skoðanir. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að Stjórnarráðið og ráðuneytin hafi möguleika á og geti haft fullt tilefni til að vísa þangað málum til umfjöllunar en það var auðvitað svo, herra forseti, að það var dapurlegt að fylgjast með þeirri umræðu í sumar þegar ráðherrar skutu sér undan því að fjalla um raunverulega ábyrgð og raunverulegar aðfinnslur í skýrslu ríkisendurskoðanda með því að benda á að kannski ætti að skoða einhverjar allt aðrar stofnanir. Þá er umræðan komin á dapurlegt stig. Mig langar í þessu efni að lesa smákafla úr þeirri skýrslu sem við fjöllum um hér í dag þar sem ríkisendurskoðandi fjallar um hlutverk og markmið stofnunarinnar, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun gerir grein fyrir flestum verkefnum sínum í skýrslum eða álitsgerðum. Þær eru jafnan sendar þeim aðilum sem eru til endurskoðunar og ráðuneytunum sem hafa með mál þeirra að gera. Sumar skýrslur eru einnig gerðar opinberar og sendar Alþingi. Þetta á einkum við um stjórnsýsluúttektir og árlega skýrslu stofnunarinnar um endurskoðun ríkisreiknings. Eftir að Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrslu lýkur yfirleitt afskiptum hennar af því máli sem er til umfjöllunar. Fyrir kemur þó að hún sér sig knúna til að leiðrétta athugasemdir eða fullyrðingar sem fram koma vegna skýrslna hennar. Þá fylgist stofnunin einnig með því hvernig sá aðili sem er til endurskoðunar bregst við athugasemdum hennar. Slíkt kann að leiða til nýrrar úttektar.“

Í skýrslu ríkisendurskoðanda vikið að málsmeðferð sem er kannski ekki einsdæmi í sögu stofnunarinnar en sem betur fer ekki algengt þegar um er að ræða umfjöllun um opinber verkefni en gerðist þó á liðnu sumri þegar þjóðin varð vitni að mjög dæmafáum skeytasendingum, að mínu mati, milli hæstv. fjármálaráðherra og embættis Ríkisendurskoðunar. Það hvernig síðasti leikur í þeim skeytasendingum var, með sameiginlegu minnisblaði frá ríkisendurskoðanda og fjármálaráðherra, vekur margar spurningar um hlutverk stofnunarinnar.

Ríkisendurskoðun er ekki dómstóll og kveður ekki upp dóma heldur gerir úttekt á hlutum og bendir á hluti og síðan er annarra að bregðast þar við. Þau viðbrögð sem fjármálaráðuneytið kaus að hafa við vegna þessa máls, reyndar var það ansi seint sem einhver efnisleg viðbrögð komu þar en komu þó með breytingartillögum við fjáraukalög, voru í rauninni embætti ríkisendurskoðanda algjörlega óviðkomandi. Ég velti þá fyrir mér hvaða tilgangi sameiginlegt minnisblað ríkisendurskoðanda og fjármálaráðuneytis þjónaði í þessu efni, hvort það er skilningur ráðuneytisins að með þessu minnisblaði hafi fallið einhvers konar sýknudómur frá ríkisendurskoðanda og ef svo er tel ég það mjög einkennilega túlkun.

Það er mikið atriði fyrir íslenskt stjórnkerfi að Ríkisendurskoðun sé sterk stofnun og vönduð og ég tel að hún standi undir því. Ég tel í rauninni störf hennar mjög góð. Ég er ekki endilega talsmaður þess, eins og mátti skilja af orðum hv. þm. Jóns Bjarnasonar, að auka eigi stórlega stjórnsýsluúttektir stofnunarinnar með því að útvista öll venjuleg endurskoðunarverkefni og, ef ég skildi athugasemd hans rétt, verja öllu því fé til stjórnsýsluúttekta. Það er auðvitað alltaf hægt að gera betur en það eru líka takmörk fyrir því hve miklu skattfé á að verja til stjórnsýsluúttekta og í þessu efni er þetta spurning um gæði en ekki magn.

Aðalatriðið í þessu máli er — brotalömin í stjórnkerfi okkar liggur í því — að þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun sé sterk og góð stofnun er framkvæmdarvaldið enn sterkara. Við höfum séð þess fjölmörg dæmi í mörg ár og síðast í sumar í svokölluðu Grímseyjarferjumáli að framkvæmdarvaldið í landinu er í rauninni svo sterkt að það getur hunsað mjög alvarlegar athugasemdir eftirlitsstofnunar eins og Ríkisendurskoðunar. Það er mjög alvarlegur þáttur. Við lögum það ekki með því að styrkja Ríkisendurskoðun, við lögum það með breyttum hugsunarhætti og vandaðri vinnubrögðum þingsins.

Ég hef áður fjallað um að ég varð fyrir miklum vonbrigðum í sumar þegar meiri hluti fjárlaganefndar ákvað að knýja í gegnum fjárlaganefnd álitsgerð vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem í raun og veru var tekin afstaða í mjög erfiðri og viðkvæmri deilu milli fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar og meiri hluti þessarar þingnefndar, og þar með í raun Alþingi, kaus að taka þar málstað framkvæmdarvaldsins gagnvart eftirlitsstofnuninni. Það er mjög alvarlegur þáttur vegna þess að Alþingi þarf að reiða sig á þetta mikilvæga eftirlitshlutverk og þjóðin þarf á því að halda að Alþingi standi með þessari eftirlitsstofnun þegar hún veitir framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þetta er ekki eina dæmið um að framkvæmdarvaldið hafi brugðist við skýrslum Ríkisendurskoðunar með þeim hætti sem ekki er viðunandi og er þar skemmst að minnast fjölmargra skýrslna sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út um Sólheima í Grímsnesi þar sem stjórnsýslu hefur verið mjög ábótavant og komið fram ítrekað í skýrslum án þess að nokkur bót hafi þar verið ráðin á.

Þetta leiðir hugann að því að þingið þurfi að taka fastar á þessu máli og við þurfum að líta svo á að þingræðið hafi hér með vissum hætti tæki í höndunum sem er Ríkisendurskoðun, sem er þessi eftirlitsstofnun með framkvæmdarvaldinu, og megi síðan ekki í sandkassaleik stjórnmálanna taka afstöðu með framkvæmdarvaldinu einungis út frá flokkspólitískum línum í málum sem þessum.

Það sem kannski kórónaði alla þessa afgreiðslu í sumar var að meiri hlutinn í fyrrnefndu áliti sínu í Grímseyjarferjumáli gaf út það álit að skerpa þyrfti á reglum vegna þessa máls og gaf í skyn að það væri niðurstaða Ríkisendurskoðunar en nokkrum vikum seinna gáfu ríkisendurskoðandi og fjármálaráðherra út sameiginlega minnisblaðið sem ég minntist á áðan þar sem var þá ekki lengur um það að ræða að skerpa þyrfti á reglum heldur var í rauninni játast undir að farið hefði verið að nokkru leyti á svig við reglurnar.

Allt þetta færði okkur heim sanninn um að í rauninni er alveg sama hversu alvarlegar ávirðingar Ríkisendurskoðunar eru og hversu gott eftirlitskerfi við höfum, ef framkvæmdarvaldið og þingmeirihlutinn standa saman í öllum málum, og hvað sem á gengur, þá verður eftirlitskerfið ég segi ekki algjörlega haldlaust en mun bitlausara en það ætti að vera.

Ég vil að öðru leyti aðeins endurtaka það sem ég sagði fyrr að ég fagna þessari skýrslu og tek undir það sem kemur fram í umsögn fjárlaganefndar um hana.