135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:14]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur varðandi það sem hún vék að um aðkomu þingsins, fjárlaganefndar almennings að hlutafélagavæddum fyrirtækjum sem eru áfram með almenningshlut. Hv. þingmaður nefndi Flugstoðir sem ég held að sé einsdæmi og eigi sér varla hliðstæðu í rugli í einkavæðingu þegar fyrirtækið Flugstoðir var stofnað, setti allt á annan endann um síðustu áramót og átti að fara að hlutafélagavæða flugvelli landsins og flugþjónustuna og síðan er ekki hægt að fylgjast með neinu sem þarna fer fram.

Það sama hefur gerst um Rarik. Það er búið að hlutafélagavæða Rarik. Meginhluti af starfsemi Rariks er bara þjónustustarfsemi, almannaþjónustustarfsemi. Það er hlutafélagavætt, það er búið að loka upplýsingarnar þar inni. Hv. þingmaður nefndi Matís, matareftirlitið sem var búið til hlutafélag um og menn vita ekki enn þá hvað kostar því ríkið verður að borga fórnarkostnaðinn af þeirri einkavæðingu.

Þetta einkavæðingaræði var nú einkennistákn síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, það mátti segja að þetta væri ríkisstjórn einkavæðingar almannaþjónustu, en nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þá spyr ég hv. þingmann hvort hún, sem er m.a. formaður í hv. samgöngunefnd, muni beita sér fyrir því að snúið verði af þessari braut og þetta hreinlega endurskoðað. En eins og hv. þingmaður nefndi með Flugstoðir þá er það kannski eitthvað sem er svo hryllilega vitlaust að við verðum að fara að snúa því til baka eða a.m.k. finna því farsælli braut.