135. löggjafarþing — 25. fundur,  15. nóv. 2007.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2006.

205. mál
[15:20]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst alltaf svolítið skrýtið að hlusta á fylgismenn vinstri grænna þegar verið er að tala um breytt rekstrarform. Þeir nefna alltaf orðið einkavæðingu eins og þeir séu að tala um Grýlu.

Ég vil benda hv. þm. Jóni Bjarnasyni á að félagar hans í vinstri grænum, meðal annars í Reykjavík, hafa staðið að því árum saman að breyta um rekstrarform, taka upp það rekstrarform sem heppilegast þykir hverju sinni. Ég nefni eitt lítið dæmi, Félagsbústaði sem stofnaðir voru hér í Reykjavík.

Formið er ekki aðalatriðið heldur hvaða tæki við sem fulltrúar almennings höfum til að hafa eftirlit með stofnunum og hvernig við getum haft áhrif á hverjir sitja í stjórnum þessara fyrirtækja. Það er mikilvægt að við getum kallað eftir upplýsingum um hvort stofnunin, ohf. eða ríkisfyrirtæki að fullu, er rekið í samræmi við þau markmið sem við setjum okkur, að reksturinn sé gegnsær og farið sé vel með opinbert fé. Það hlýtur að vera aðalatriði málsins en ekki að hengja sig endalaust í umræðu um form sem engu skilar.